Fréttasafn7. nóv. 2019 Almennar fréttir Framleiðsla

Stofnfundur Samtaka smáframleiðenda matvæla

Stofnfundur Samtaka smáframleiðenda matvæla var haldinn á Hótel Sögu síðastliðinn þriðjudag. Markmið samtakanna er meðal annars að stuðla að öflugu samstarfi og samtakamætti smáframleiðenda matvæla, kraftmikilli nýsköpun, auknum fjölbreytileika og verðmætasköpun. Samtökin, sem verða aðilar að Samtökum iðnaðarins, munu vinna að hagsmunamálum sem snúa að félagsmönnum, bættu starfsumhverfi og löggjöf utan um smáframleiðendur sem gefi þeim færi á að blómstra. Þá munu samtökin leiðbeina félagsmönnum varðandi ráðgjöf og stuðning, skipuleggja viðburði, kynna félagsmenn og það úrvarl sem í boði er.

Samkvæmt samþykktum hins nýstofnaða félags verða félagsmenn að uppfylla tvö af þremur skilyrðum til að teljast smáframleiðandi. Í fyrsta lagi að heildareignir séu undir 100 milljónum króna, að hrein velta félagsins sé einnig undir 100 milljónum króna og/eða að meðalfjöldi ársverka á einu fjárhagsári fari ekki yfir 10 manns.

Stofnfundur kaus fystu stjórn samtakanna og var Karen Jónsdóttir, eigandi Kaja organic sem rekur Matarbúr Kaju og Café Kaju kjörinn fyrsti formaður samtakanna. Með henni í stjórn sitja Svava Hrönn Guðmundsdóttir, eigandi Sólakurs sem framleiðir Sælkerasinnep Svövu, Þórhildur María Jónsdóttir, eigandi Kokkhús, og Þröstur Heiðar Erlingsson frá Birkihlíð kjötvinnslu.

Frekari upplýsingar um samtökin er að finna á síðu félagsins á Facebook.

Tengiliður Samtaka smáframleiðenda hjá Samtökum iðnaðarins er Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri á framleiðslusviði, gunnar@si.is.

Á myndinni fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins, Þröstur Heiðar Erlingsson, Guðný Harðardóttir, Svava Hrönn Guðmundsdóttir og Þórhildur M. Jónsdóttir.