Fréttasafn



20. apr. 2018 Almennar fréttir

Stofnun innviðaráðuneytis

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, leggur til í grein sinni í Morgunblaðinu að húsnæðis- og skipulagsmál verði sett inn í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og stofnað væri innviðaráðuneyti. Hann segir í greininni að húsnæðismál og mannvirkjagerð séu nú á forræði fjögurra ráðuneyta þar sem umgjörð markaðarins er sett og að sveitarstjórnir landsins beri ábyrgð á að leysa húsnæðisþörf fólks í viðkomandi sveitarfélagi, fara með skipulagsvald, leyfisveitingar og síðast en ekki síst gera húsnæðisáætlanir. Núverandi fyrirkomulag sé þannig óskilvirkt, lengi boðleiðir og tefji ákvarðanatöku sem leiði til aukakostnaðar við byggingu húsnæðis. Með aukinni samvinnu, einfaldara og skilvirkara kerfi og auknu gagnsæi á húsnæðismarkaðnum aukist stöðugleiki og skilvirkni sem skili sér í hagkvæmara húsnæði, öllum til heilla.

Sigurður segir jafnframt að allir þurfi þak yfir höfuðið og fjárfesting í húsnæði sé gjarnan stærsta og mikilvægasta fjárfesting hverrar fjölskyldu. Myndast hafi gjá milli framboðs og eftirspurnar sem hafi m.a. leitt til þess að Íslendingar eyði nú mun hærra hlutfalli ráðstöfunartekna en áður í húsnæði og verulega sé vegið að húsnæðisöryggi ungs fólks. Hann segir að þetta séu áskoranirnar sem Ísland standi frammi fyrir og þurfi að bæta úr. „Ríkið þarf að sýna forræði í þessum málum. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu hlýtur að vera stofnun innviðaráðuneytis, ráðuneytis húsnæðis-, samgöngu- og sveitarstjórnarmála.“ 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.