Fréttasafn



13. maí 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Stóra verkefnið að verja og skapa ný störf

Þetta er líklega versta kreppa í heila öld eða svo. Stóra verkefnið fyrir utan að tryggja heilsu og heilbrigði almennings er að verja störf og skapa ný störf. Það er að skapa verðmæti þannig að við náum aftur fyrri stöðu og helst gott betur. Þetta er þá hvatning og vitundarvakning um að skipta við innlend fyrirtæki í ólíkum greinum. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunútvarpi Rásar 2 um sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs undir yfirskriftinni Íslenskt - gjörið svo vel sem hófst um helgina. Yfir 160 milljónum króna verður varið í átakið, sem ætlað er að hvetja til viðskipta við innlend fyrirtæki og skapa þannig viðspyrnu í atvinnulífinu. Hann segir að valið sé alltaf hvers og eins, en saman gætum við haft áhrif á viðspyrnuna. „Við verjum störf, stuðlum að uppbyggingu og tryggjum að heimilin, efnahagslífið og samfélagið allt nái sér á strik. Þess vegna skiptir þetta svo miklu máli og þetta er eitthvað sem við öll getum gert. Vegna þess að með vali okkar þá höfum við áhrif á hverjum einasta degi.“

Nýsköpun skjóti styrkari stoðum undir hagkerfið

Sigurður segir í Morgunútvarpinu að íslenskt atvinnulíf hafi einblínt of mikið á vöxt einnar atvinnugreinar í einu frá aldamótum. Fyrst á bankakerfið og nú ferðaþjónustuna, en í bæði skiptin hafi það endað með hruni. „Núna er þriðji áratugurinn og við berum þá von í brjósti að það verði áratugur nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu sem skjóti þá styrkari stoðum undir hagkerfið svo við verðum ekki eins útsett fyrir sveiflum. Nýsköpun er ekki ein af leiðunum fram á við. Nýsköpun er eina leiðin fram á við.“ 

Á vef RÚV er hægt  að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.