Fréttasafn



25. nóv. 2025 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Stórauka þarf hagsmunagæslu gagnvart Evrópu

„Við hrósuðum stjórnvöldum fyrir sína hagsmunagæslu í málinu en til viðbótar þá höfum við og fyrirtækin sjálf staðið vaktina núna í marga mánuði,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í samtali við Tómas Arnar Þorláksson í beinni útsendingu í kvöldfréttum Sýnar í kjölfar fundar utanríkisráðherra með fulltrúum atvinnulífsins um verndaraðgerðir Evrópusambandsins á kísiljárn frá Íslandi og Noregi. Sigurður segir í fréttinni að það hafi verið gott að sjá að þó að ákvörðunin væri vonbrigði að þá hafi að minnsta kosti sjónarmið okkar notið hljómgrunns í Evrópu. „Í síðustu viku voru mjög mikilvægir fundir í Brussel þar sem okkar fólk var ásamt ráðherra og þingmönnum þar sem að mótmælum var komið rækilega á framfæri á fundum þar sem andrúmsloftið var mjög þungt. Og við lögðum mikla áherslu á það að fá skýr skilaboð frá Evrópusambandinu, bæði embættismönnum og pólitíkusum, um það hvort að það væri fordæmi í þessu máli, hvort að við ættum von á því að þetta gerist aftur. Sem betur fer höfum við fengið skilaboð frá Evrópusambandinu um að svo sé ekki. Þau sjá ekki fyrir sér að þetta sé fyrirboði um það sem koma skal.“ 

Verkefnið er að styrkja EES-samninginn

Þegar Tómas spyr Sigurð hvort það væri nóg að þessi skilaboð komi frá framkvæmdastjórum og hvort hann myndi vilja fá þetta eitthvað skýrar svarar Sigurður: „Við myndum auðvitað vilja fá það skýrar en það er mjög gott að fá þessi fyrstu viðbrögð og á þeim grunni þá held ég að verkefnið hjá okkur sé það að styrkja EES-samninginn vegna þess að Evrópa er okkar stærsti markaður. EES-samningurinn er okkar mikilvægasti viðskiptasamningur og við eigum að byggja á honum áfram.“

Hagsmunagæsla á vettvangi stjórnmála, stjórnvalda og atvinnulífs

Í máli Sigurðar kemur fram að hann telur þetta hafa verið góðan fund. „Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál sem að er til umræðu og viðbrögðum Evrópusambandsins, sem að greinilega átta sig á alvarleika málsins, sem að er gott að finna.“ Hann segir að hins vegar sé þrátt fyrir það að Samtök iðnaðarins séu mjög ánægð með hagsmunagæsluna að þá telja samtökin að það þurfi að stórauka hagsmunagæslu gagnvart Evrópu og það þurfi að gerast á vettvangi stjórnmála og stjórnvalda. „En það þarf líka að gerast á vettvangi atvinnulífsins.“

Mynd af Vísi/Ívar Fannar

Sýn / Vísir, 24. nóvember 2025.