Fréttasafn



7. maí 2018 Almennar fréttir

„Stóraukin fjárfesting“ í samgöngumálum eru orðin tóm

„Stóraukin fjárfesting“ ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum eru orðin tóm segir meðal annars í umsögn Samtaka iðnaðarins um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023, 494. mál. Þar segir að fjárveitingar til vegamála hafi verið allt of litlar undanfarin ár og stórátak þurfi til að bæta úr en í fjármálaáætlun sem kynnt var í byrjun apríl sé því miður ekki að finna vott af slíku átaki. Samkvæmt áætluninni verða framlög til samgöngumála viðlíka hlutfall af landsframleiðslu á tíma áætlunarinnar næstu fimm árin og þau hafa verið síðustu fimm ár og langt undir þörf. Það liggi fyrir að framlög til innviðauppbyggingar þurfi að aukast varanlega til að sinna nauðsynlegri viðhaldsþörf og nýfjárfestingu. Þar fyrir utan þurfi átak til að vinna á uppsöfnuðum vanda sem sé ærinn.

Þetta er meðal þess sem Samtök iðnaðarins gera athugasemdir við í umsögninni en því til viðbótar eru gerðar athugasemdir við eftirtalið; að það vanti atvinnustefnu fyrir Ísland, að það þurfi aukinn og víðtækari stöðugleika í íslensku efnahagslífi, að umfang hins opinbera í hagkerfinu sé orðið of mikið og álögur óhóflegar og forgangsröðunin röng í opinberum rekstri og að tryggja þurfi aukna ásókn að iðn- og verknámi. Í umsögninni kemur jafnframt fram að Samtök iðnaðarins fagni afnámi þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunarkostnaðar. 

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.