Fréttasafn



18. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Stórstígar framfarir í nýsköpun

Við ákváðum seint á síðasta ári að tileinka árið 2020 nýsköpun hjá Samtökum iðnaðarins. Árið fór aðeins öðruvísi en við ætluðum en við náðum að halda merkjum nýsköpunar vel á lofti. Það hafa orðið stórstígar framfarir í nýsköpun. Það hefur orðið mikil umræða um nýsköpun og starfsumhverfi og lagaumhverfi, auknir hvatar og skattaumhverfið. Þetta segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í samtali við Jón G. Hauksson á Hringbraut. Hann segir að við höfum náð miklum árangri og miklum framförum í nýsköpunarumhverfinu á árinu. Áður en viðtalið hófst var sýnt nýtt myndband Samtaka iðnaðarins þar sem hvatt er til þess að nýsköpun verði sett í forgang. 

Blikur á lofti í stoðum gjaldeyrisöflunar

Árni segir að það séu blikur í lofti með þær þrjár stoðir sem við höfum verið að reiða okkur á í gjaldeyrisöflun og -tekjum; sjávarútvegur, orkufrekur iðnaður og ferðaþjónusta, sérstaklega í ferðaþjónustunni og orkufreka iðnaðinum. „Við höfum sagt að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að dreifa eggjunum í fleiri körfur, setja fókus á fjórðu stoðina sem er þá hugverkaiðnaðurinn.“

Færum okkur yfir í fjórðu stoðina, hugverkaiðnaðinn

Þá kemur fram í máli Árna að á Iðnþingi núna í haust hafi komið fram að við þurfum að búa til 60 þúsund ný störf fyrir 2050. „Hvernig ætlum við að gera það, hvar ætlum við að vaxa? Ætlum við að treysta á þessar takmörkuðu auðlindir okkar til að búa til fleiri störf eða ætlum við að færa okkur yfir í fjórðu stoðina sem er þá þessi hugverkaiðnaður. Það er fjarskipta- og upplýsingatækni, það er leikjaiðnaður, það er heilbrigðistækni og önnur hátækni.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á viðtalið við Árna í heild sinni sem hefst á mínútu 15:31.

Hringbraut, 16. desember 2020.

Hringbraut-16-12-2020Jón G. Hauksson ræðir við Árna Sigurjónsson.

Hér er hægt að nálgast myndbandið:

https://vimeo.com/491678123