Fréttasafn



14. jún. 2023 Almennar fréttir Mannvirki

Stórsýningin Verk og vit haldin í sjötta sinn í apríl 2024

Stórsýningin Verk og vit verður haldin í sjötta sinn dagana 18.-21. apríl 2024 í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Í tilkynningu segir að mikill áhugi hafi jafnan verið á sýningunni, bæði meðal fagaðila og almennings, og hafi hún fest sig í sessi sem lykilviðburður og einskonar uppskeruhátíð í byggingariðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á Íslandi. Markmið sýningarinnar eru annars vegar að auka tengslamyndun og styrkja viðskiptasambönd milli fagaðila og hins vegar að auka vitund almennings um starfsemi atvinnugreinanna sem að sýningunni koma, meðal annars hvað varðar vitund um gæða- og menntamál. 

Verk og vit hefur ávallt vakið mikla athygli og verið vel sótt. Gestafjöldi á síðustu sýningum hefur verið í kringum 25.000 og rúmlega 100 sýnendur hafa kynnt vörur sínar og þjónustu. Þá hefur verið haldin ráðstefna og aðrir viðburðir í tengslum við sýninguna þar sem fjallað er um byggingariðnað, skipulagsmál, mannvirkjagerð og menntamál frá ýmsum sjónarhornum. 

Sýnendur á Verk og vit 2022 voru m.a. byggingaverktakar, verkfræðistofur, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki, framleiðendur, menntastofnanir, fjármálafyrirtæki, ráðgjafafyrirtæki og sveitarfélög. Í viðhorfskönnun sem Zenter gerði meðal sýnenda sögðust um 92% hafa verið ánægðir með sýninguna og 94% sögðust hafa náð markmiðum sínum vel eða mjög vel. Í tilkynningu kemur fram að það komi því ekki á óvart að nær allir sýnendur hafi talið vera grundvöll fyrir því að halda Verk og vit aftur.

AP almannatengsl er framkvæmdaraðili sýningarinnar en samstarfsaðilar eru mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Byko og Landsbankinn.

Nánari upplýsingar á vefsíðunni www.verkogvit.is.