Fréttasafn



14. okt. 2015 Mannvirki

Stórsýningin Verk og vit haldin í þriðja sinn

Stórsýningin Verk og vit verður haldin í þriðja sinn dagana 3.–6. mars 2016 í íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Sýningin er tileinkuð byggingariðnaði, skipulagsmálum, mannvirkjagerð og tengdum greinum.

Sýningin er ætluð framleiðendum og innflytjendum sem koma að bygginga- og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, hönnuðum og ráðgjöfum. Fyrstu tvo dagana, 3. og 4. mars, verður sýningin opin fyrir fagaðila en helgina 5.–6. mars verður almenningur einnig boðinn velkominn. Um 18.000 gestir só́ttu sýninguna í Laugardalshöll árið 2008 þar sem um 100 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög kynntu vörur sínar og þjónustu. Sem dæmi um sýnendur má nefna byggingarverktaka, verkfræðistofur, tækjaleigur, skóla, fjármálafyrirtæki, orkufyrirtæki, ráðgjafafyrirtæki og sveitarfélög. Mikil ánægja var með síðustu sýningu sem haldin var árið 2008 en 92% sýnenda þá töldu grundvöll fyrir því að hún yrði haldin aftur. Nærri 90% sýnenda voru mjög ánægð með sýninguna og um 80% sýnenda fannst að markmiðum þeirra hefði verið náð með þátttöku í sýningunni.

Mikill áhugi

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga fyrir sýningunni,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar. „Menn eru greinilega tilbúnir að hittast og kynna vörur sínar og þjónustu ásamt því sem er efst á baugi í greininni, enda margar stórar en ekki síður minni framkvæmdir sem liggja á teikniborðinu.“ Ingibjörg bendir einnig á að samkvæmt Þjóðhagsspá hagfræðideildar Landsbankans sé gert ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting og einkaneysla verði megindrifkraftur hagvaxtar á næstu tveimur árum, og vega þar byggingariðnaður og mannvirkjagerð þungt. Það sé því kominn tími til að halda Verk og vit á nýjan leik.

Fjölbreyttir viðburðir verða haldnir samhliða sýningunni og verða þeir kynntir þegar nær dregur sýningu.  Skráning er hafin á vefnum www.verkogvit.is. Þar má finna allar nánari upplýsingar. Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, Landsbankinn og LNS Saga.

Mynd: Stjórnendur og samstarfsaðilar sýningarinnar Verk og vit 2016, frá vinstri:
Elsa Giljan Kristjánsdóttir frá Verk og vit, Bjarni Daníelsson og Hrólfur Jónsson frá Reykjavíkurborg, Svanbjörg Helena Jónsdóttir og Pétur B. Guðmundsson frá Landsbankanum, Rakel Pálsdóttir og Árni Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins, Ásgeir Loftsson frá LNS Sögu og Ingibjörg Gréta Gísladóttir frá Verk og vit.