Fréttasafn



5. sep. 2025 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Stórt framfaraskref sem tryggir samræmi í heilbrigðiseftirliti

Samtök iðnaðarins fagna fyrirhugaðri breytingu á fyrirkomulagi heilbrigðiseftirlits og telja hana stórt framfaraskref til að tryggja samræmda og skilvirka framkvæmd sem stuðli að auknum fyrirsjáanleika. Þetta segir Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, meðal annars í grein á Vísi sem ber yfirskriftina Ákalli um samræmingu í eftirliti svarað. Hún segir að það þurfi að tryggja að sú sérfræðiþekking sem sé til staðar á landsbyggðinni haldi og eftirlitsaðilar séu í nálægð við fyrirtækin um land allt. Vonir séu bundnar við að samræmd framkvæmd bæti rekstrarskilyrði og styrki þannig samkeppnishæfni iðnfyrirtækja samfélaginu til heilla, á sama tíma og öryggi neytenda sé tryggt.

Breytingin stuðlar að samræmdu og einfaldara eftirliti um land allt

Í greininni rekur Lilja aðdraganda þessa ákalls Samtaka iðnaðarins og fleiri hagsmunasamtaka um breytingar á fyrirkomulagi heilbrigðiseftirlits og að þar hafi þyngst vegið ósamræmi í framkvæmd eftirlitsaðila milli landssvæða og skortur á yfirsýn. Afleiðingarnar séu að fyrirtæki á landsvísu hafi búið við mismunandi starfs- og rekstrarskilyrði sem skapi ófyrirsjáanleika og ójafnræði milli aðila á markaði. Hún segir að aðildarfyrirtæki Samtaka iðnaðarins hafi mörg hver staðið frammi fyrir ósamræmi í framkvæmd með tilheyrandi óhagræði en að tvö ráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti, hafi nú svarað ákallinu með áætlun um að eftirlit verði fært frá stofnunum sveitarfélaga til ríkisins. Með breytingunum fækki framkvæmdaraðilum eftirlits úr ellefu í tvo og verði þannig stuðlað að samræmdu og einfaldara eftirliti um land allt.

Á vef Vísis er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 4. september 2025.