Strangari reglur hér á landi um mengaðan jarðveg
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá SI, segir í frétt Morgunblaðsins að reglur um mengaðan jarðveg séu ekki samræmdar í Evrópu en frétt blaðsins fjallar um nýja reglugerð um mengun í jarðvegi sem leggur auknar skyldur á byggingaraðila sem getur numið allt að 1-1,5 milljónum króna á hverja nýja íbúð sem byggð verður á Höfðanum. „Svokölluð bakgrunnsgildi eru ólík eftir löndum og á Íslandi eru viðmiðin að sumu leyti strangari eða ósveigjanlegri en í Noregi. Þar er fimm flokka kerfi en hér á landi er einungis tveggja flokka kerfi, þ.e. íbúðarsvæði og atvinnusvæði, sem þýðir að jarðvegur sem mætti nýta á tiltekinn hátt í Noregi þarf hér að fara í sérstaka meðhöndlun.“
Ósveigjanlegar og kostnaðarsamar reglur
Jóhanna Klara segir jafnframt í Morgunblaðinu að vegna takmarkaðra úrræða til hreinsunar á Íslandi þurfi að flytja jarðveginn burt í heilu lagi. „Þetta gerir reglurnar ósveigjanlegri og kostnaðarsamari í framkvæmd. Í Noregi er þetta tekið inn í kerfið með því að flokka svæði, en á Íslandi skortir slíkt kerfi og það dregur úr sveigjanleika.“ Hún segir að hér skorti úrræði um raunhæfar lausnir til hreinsunar á jarðvegi og því sé hann urðaður. „Einnig er það óljóst hér hver beri ábyrgð. Umhverfisstofnun segir að sveitarfélög beri ábyrgð, en þau ráða illa við verkefnið eins og staðan er.“
Skapar óvissu og tafir
Jafnframt nefnir Jóhanna Klara ósamræmi í lögum og sem dæmi að reglur um úrgang, mat á umhverfisáhrifum og skipulag tali ekki vel saman sem skapi óvissu og tafir. „Sum viðmiðunarmörk eru mjög lág og leiða til þess að jarðveg, sem ekki telst alvarlega mengaður, þarf samt að fjarlægja. Þetta er ekki alltaf umhverfislega hagkvæmt.“
Morgunblaðið, 21. október 2025.