Fréttasafn9. maí 2019 Almennar fréttir Nýsköpun

Stuðningsumhverfi nýsköpunar á að vera skilvirkt

Stuðningsumhverfi nýsköpunar á að vera skilvirkt og styðja við opinbera stefnu í nýsköpun. Kynningar- og markaðsstarf er tvíþætt, annars vegar að hvetja til nýsköpunar og hins vegar að koma vörum og þjónustu á markað en hvað hið síðarnefnda varðar má gera betur. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI og formaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, meðal annars í grein sinni í Morgunblaðinu í dag sem ber yfirskriftina Öflugur bakhjarl nýsköpunar. Hann segir að fjárfesting í rannsóknum og þróun sé ein forsenda þess að nýsköpun dafni og að aðgangur að hæfu starfsfólki, með sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum vísinda og hátækni, sé lykillinn að því að styðja við nýsköpun og sýn um hugvitsdrifið hagkerfi til framtíðar. 

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur fjárfest fyrir 11 milljarða króna

Sigurður segir að tilvist Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins byggist á því að virkja þann mikla kraft sem í hugvitinu felst með því að leggja félögum til áhættufjármagn með fjárfestingu og taka virkan þátt í uppbyggingu þeirra. Hann segir að sjóðurinn komi að félögum snemma á vaxtarskeiðinu og fylli þannig upp í ákveðið tómarúm sem annars hafi ríkt gagnvart áhættufjárfestingum. Þetta hafi sjóðurinn gert frá árinu 1998 en hann hafi lagt íslenskum sprotafyrirtækjum til um 11 milljarða króna frá stofnun. Sjóðurinn sé öflugur bakhjarl nýsköpunar og fjölmargar umsóknir sem sjóðnum berast undirstriki það.

Kallað eftir endurskoðun á umgjörð 

Í greininni segir Sigurður að nýlegar fjárfestingar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, eftir nokkurt hlé, hafi meðal annars verið á sviðum öldrunar þjóða og loftslagsmála. Hann segir að það sé sannarlega ánægjulegt að íslensk fyrirtæki skuli leggja sitt af mörkum við lausn þessara mikilvægu mála sem eigi alþjóðlega skírskotun. Þá segir hann að um nokkurra ára skeið hafi verið kallað eftir endurskoðun á umgjörð sjóðsins. Eðlilegt sé að ráðast í slíka vinnu með hliðsjón af nýrri stefnu stjórnvalda um nýsköpun. Þar þurfi sérstaklega að skoða þrennt; hlutverk sjóðsins, fjármögnun og samspil ólíkra stofnana í stuðningsumhverfinu. Jafnframt kemur fram að viðsnúningur hafi orðið á rekstri sjóðsins en afkoma hans var jákvæð árið 2018, í fyrsta sinn síðan árið 2014. Sigurður segir sjóðinn vel í stakk búinn til að sinna sínu hlutverki af krafti. 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.