Stýrivaxtahækkun leggst illa í SI
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Viðskiptablaðsins að stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær leggist afar illa í samtökin en að hans mati sé með hækkuninni verið að leggja í óþarflega mikinn kostnað fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu við að ná niður verðbólgunni. „Við hefðum viljað sjá vexti óbreytta. Fyrir því eru mjög góð rök. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað vexti bankans mjög mikið á mjög stuttum tíma. Það hefði alveg verið lag að leyfa þeim hækkunum að hafa sín áhrif og sjá hversu mikið verðbólgan kæmi niður.“
Ingólfur segir aðhald peningastefnunnar hafa aukist umtalsvert og raunstýrivextir séu orðnir jákvæðir. Þá verði að hafa í huga að það taki tíma fyrir vaxtahækkanir að hafa áhrif á verðbólguna. „Það sem maður sér í tölunum er að verðbólgan er búin að koma niður úr 10,2% í 7,6%. Síðan hafa verðbólguhorfur til skemmri tíma verið að batna líkt og kemur m. a. fram í nýrri verðbólguspá Seðlabankans. Einnig sést það í verðbólguvæntingum til skemmri tíma að þær hafa verið að koma niður.“
Hér er hægt að lesa frétt Viðskiptablaðsins í heild sinni.
Viðskiptablaðið, 24. ágúst 2023.