Fréttasafn10. jún. 2015 Starfsumhverfi

Stýrivextir hækkaðir í morgun - Krefjandi áskorun fyrir iðnaðinn

Seðlabankinn ákvað í morgun að hækka stýrivexti um 0,5 prósentur. Rök Seðlabankans lúta að hækkun launakostnaðar umfram spár, hækkun verðbólguvæntinga og eftirspurn í hagkerfinu. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segir að þessi ákvörðun Seðlabankans hafi ekki komið á óvart og sé í takt við spár. „Frá sjónarhóli Seðlabankans er þessi ákvörðun skiljanleg enda líkur til að nýlegir kjarasamningar geti sett aukinn þrýsting á verðlag. Frá sjónarhóli iðnaðarins er þetta mikil og krefjandi áskorun. Annars vegar er búið að semja um launahækkanir sem vandasamt verður að standa undir. Hins vegar er á sama tíma hafið vaxtahækkunarferli sem ekki sér fyrir endann á og það þrýstir upp fjármagnskostnaði fyrirtækja“, segir Bjarni

Í yfirlýsingu Seðlabankans segir að búast megi við umtalsverðri hækkun vaxta í ágúst og enn frekari hækkun á komandi misserum. „Þetta orðfæri Seðlabankans veldur nokkrum áhyggjum. Bankinn ætlar sér greinilega að mæta verðbólgu með hörku sem er auðvitað hans hlutverk. En við megum hins vegar ekki koma okkur aftur í þá stöðu að vera með Seðlabanka sem er einn á verðbólguvaktinni. Þróun á vinnumarkaði, launamyndun og ríkisfjármál verða að styðja við stöðugt verðlag til að vextir haldi ekki áfram að hækka“, segir Bjarni að lokum.