Fréttasafn



4. nóv. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Stýrivextir lækkaðir og dregið úr álögum á fyrirtæki

Í Morgunblaðinu um helgina var fjallað um nýja þjóðhagsspá Hagstofunnar en samkvæmt henni verður 1,7% hagvöxtur á næsta ári og gangi spáin eftir gætu 1.500 til 2.000 ný störf orðið til í hagkerfinu á árinu 2020. Meðal annars er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir launþega í byggingariðnaði, sem starfa við húsbyggingar, hafa verið 3% færri í ágúst en árið áður. „Það er okkar tilfinning að samdrátturinn muni halda áfram í vetur a.m.k.“ Í fréttinni kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi kallað eftir því að hið opinbera auki framkvæmdir í niðursveiflunni en samkvæmt þjóðhagsspánni muni fjárfesting hins opinbera dragast saman um 11,5% í ár en aukast um 4,5% og 7,5% næstu tvö ár. „Aukin fjárfesting hins opinbera í innviðum vegur á móti hægari vexti í fjármunamyndun einkaaðila og hagkerfisins alls. Það dregur úr niðursveiflunni og byggir í leiðinni upp þennan mikilvæga þátt hagvaxtar framtíðarinnar sem innviðir eru.“ Ingólfur minnir á að Hagstofan hafi áður spáð 2,6% hagvexti á næsta ári en spái nú 1,7% hagvexti. Það hafi verið mat Samtaka iðnaðarins undanfarið að forsendur í spám um hagvöxt á næsta ári hafi verið bjartsýnar. Frekari hagstjórnaraðgerða sé þörf ef stuðla eigi að kröftugum bata. Horft er til frekari lækkunar stýrivaxta og aðgerða í opinberum fjármálum sem felist m.a. í að draga úr álögum á íslensk fyrirtæki. Þannig verði stuðlað að bættri samkeppnishæfni landsins.

Morgunblaðið / mbl.is, 2. nóvember 2019.