Fréttasafn



16. nóv. 2023 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Stýrivextir Seðlabankans eru of háir að mati SI

Stýrivextir Seðlabankans eru of háir og aðhaldsstig peningastefnunnar of mikið um þessar mundir að mati Samtaka iðnaðarins, SI. Verðbólgan hefur hjaðnað nokkuð undanfarið, verðbólguvæntingar lækkað og raunstýrivextir, sem er mælikvarði á aðhald peningastefnunnar hækkað. Á sama tíma hefur dregið úr hagvexti og hagvaxtarhorfur hafa versnað, ekki síst eftir að jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hófust. Að mati SI þarf að gæta að því að baráttan við verðbólguna, sem svo sannarlega er mikilvæg, verði með þeim hætti að efnahagslegum og félagslegum kostnaði verði haldið í lágmarki.

Hægt hefur umtalsvert á hagvexti og sjást merki þess víða, m.a. á tölum um neyslu og fjárfestingu. Ljóst er að hátt vaxtastig Seðlabankans er farið að hafa mikil áhrif á heimilin og fyrirtækin í landinu og viðbúið að þau áhrif verði enn meiri og sýnilegri á næstunni. Mikilvægt er að mati SI að Seðlabankinn gæti hófs í aðgerðum sínum og beiti vaxtatækjum sínum af varúð, sérstaklega við þær aðstæður sem nú eru upp í íslensku samfélagi.

Samtök iðnaðarins eru ekki ein um þá skoðun að stýrivextir bankans séu of háir um þessar mundir. Fer þeim fjölgandi sem halda því fram. Má nefna að í könnun meðal aðila á fjármálamarkaði sem birt var fyrr í þessari viku kom fram að um 27% svarenda telja að aðhald peningastefnunnar sé of þétt og stýrivextir bankans of háir en það hlutfall var 15% fyrir ári og 0% fyrir tveim árum. 

Peningastefnunefnd Seðlabankans mun koma saman í byrjun næstu viku og taka ákvörðun um stýrivexti bankans. Verður niðurstaða nefndarinnar kynnt miðvikudaginn 22. nóvember. Líkur eru taldar á því að nefndin muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Ef af verður er um að ræða annan vaxtaákvörðunarfundinn í röð þar sem nefndin heldur stýrivöxtum bankans óbreyttum eftir hratt vaxtahækkunarferli sem stóð yfir af hálfu bankans frá því um mitt ár 2021 til október í ár en á þeim tíma voru vextir bankans hækkaðir úr 0,75% í 9,25% í fjórtán skrefum.

Áhrif mikilla hækkana stýrivaxta undanfarin misseri eru að koma fram og munu halda áfram að gera það á næstu mánuðum enda tekur nokkurn tíma fyrir vaxtabreytingar að hafa áhrif. Verðbólgan hefur farið úr 10,2% niður í 7,9%  síðan í febrúar á þessu ári. Reiknað er með því að dragi talsvert meira úr verðbólgu á næstunni. Samhliða þessu hafa verðbólguvæntingar lækkað. SI telja mikilvægt að aðrir aðilar sem koma að hagstjórninni leggi sitt af mörkum við að ná niður verðbólgunni. Í því sambandi er boltinn nú hjá stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins. Að mati Samtaka iðnaðarins er mikilvægt að kjarasamningar í vetur renni stoðum undir stöðugleika og verðbólgu í takti við markmið Seðlabankans. Boltinn er einnig hjá ríkisstjórninni þar sem mikilvægt er að hún beiti aðhaldi og nýti ríkisfjármálin til að styrkja framboðshlið hagkerfisins og efli framleiðni.

Adhald-peningastefnunnar-mynd-002-

Heimild: Seðlabanki Íslands.


Viðskiptablaðið, 16. nóvember 2023.

mbl.is, 16. nóvember 2023.