Fréttasafn



18. des. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Styrking krónu og launahækkanir skerða samkeppnishæfni

„Ef 12 mánaða taktur í fjölgun starfa í framleiðsluiðnaði er skoðaður kemur í ljós að þar er samdráttur síðustu þrjá mánuði í fyrsta sinn síðan árið 2010, en styrking krónunnar og mikil hækkun launa hefur skert samkeppnishæfni þeirra íslensku fyrirtækja sem helst keppa við erlend og m.a. vegið að markaðshlutdeild þessara fyrirtækja,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í Morgunblaðinu um helgina en tölur um hagvöxt á þriðja fjórðungi í ár sýna að það hafi „dregið nokkuð skarpt úr hagvexti frá síðasta ári og meira eftir því sem liðið hefur á árið“. Í tölum Hagstofunnar kemur fram að landsframleiðslan hafi aukist á 3. fjórðungi að raungildi um 3,1% frá sama fjórðungi í fyrra en hagvöxturinn var 7,4% á síðasta ári. 

Aukin ríkisútgjöld lítil áhrif á sköpun starfa

Ingólfur segir í fréttinni að nokkuð hafi dregið úr fjölgun starfa í byggingariðnaði en að vöxturinn sé enn mjög hraður. Áfram verði eftirspurn eftir innfluttu vinnuafli í þeim geira og að íbúðafjárfesting sé að aukast nokkuð hratt. Þegar Baldur Arnarson, blaðamaður, spyr um áhrif aukinna ríkisútgjalda telur Ingólfur að aukin ríkisútgjöld muni hafa tiltölulega lítil áhrif á sköpun starfa. „Það verður viðlíka vöxtur í samneyslunni og verið hefur. Það á eitthvað að auka fjárfestingu hjá hinu opinbera. Það breytir hins vegar ekki stóru myndinni. Það á til að mynda að bæta aðeins við fjárfestingu í samgöngum. Það er hins vegar óveruleg aukning og breytir heildarmyndinni lítið.“

Morgunblaðið, 16. desember 2017.