Fréttasafn



17. feb. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Menntun

Styttist í að nám í jarðvirkjun verði að veruleika

Góð mæting var á félagsfundi Félags vinnuvélaeigenda sem fór fram í Húsi atvinnulífsins síðastliðinn fimmtudag. Á fundinum kusu félagsmenn í Félagi vinnuvélaeigenda um námsheiti  á nýju námi í jarðvinnu og starfsheiti að námi loknu. Fyrir valinu varð starfsheitið jarðvirki og nemendur munu stunda nám í jarðvirkjun.

Á fundinum fór Ásdís Kristinsdóttir, verkefnastjóri fyrir nám í jarðvinnu, yfir stöðu verkefnisins. Í máli hennar kom meðal annars fram að stýrihópur hefur verið skipaður frá SI, Félagi vinnuvélaeigenda, Tækniskólanum og menntamálaráðuneytinu. Hópurinn hefur farið til Svíþjóðar og Noregs að heimsækja skóla sem kenna sambærilegt nám. Eins og stendur er hópurinn að skoða húsnæði, æfingasvæði og vélakost sem þarf til að koma þessu námi af stað. Stefnt er að því að hefja námið næsta haust fyrir yngri nemendur beint út grunnskóla en eldri nemendur gætu jafnvel hafið námið fyrr.

Hildur Ingvarsson, skólameistari Tækniskólans, tók einnig til máls á fundinum. Hún fór yfir starfsemi Tækniskólans og hvar mögulegt nám í jarðvinnu gæti átt heima þegar að verður. Það er vilji fyrir því að setja saman ákveðna verkefnapakka þannig að námið verði tekið þrepaskipt og viðkomandi öðlast mismundi réttindi eftir þrepum. Það kom fram á fundinum að áhugavert væri að setja upp alveg nýtt iðnnám en á sama tíma þurfi að huga að þeim sem þegar starfi við fagið og gætu haft áhuga á að fá sína þekkingu og færni metna inn í námið.

Fundur-februar-2020-3-Ásdís Kristinsdóttir, verkefnastjóri fyrir nám í jarðvinnu.

Fundur-februar-2020-1-Hildur Ingvarsson, skólameistari Tækniskólans.

Fundur-februar-2020-2-