Súpufundur Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði
Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði, MIH, stóð fyrir súpufundi í byrjun maí í Kænunni í Hafnarfirði. Að venju var vel mætt á fundinn, en rúmlega 40 manns mættu. Oft hafa skipulagsmál verið til umræðu á þessum fundum MIH en að þessu sinni var um upplýsingafund að ræða.
Í byrjun fundar kynntu Jón Þórðarson, formaður MIH, og Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, hvað MIH og SI eru að vinna fyrir félagsmenn heilt yfir. Jón nefndi meðal annars að í skýrslu stjórnar á aðalfundum væri bestu upplýsingarnar um hvað væri verið að vinna í hagsmunagæslu fyrir félagsmenn og hvatti félagsmenn til að koma þeim upplýsingum sem víðast.
Að kynningu lokinni kynnti Jóhannes Unnar Barkarson Ajour gæðakerfið. Mjög góðar umræður sköpuðust í kjölfar kynningar Jóhannesar og voru fundarmenn ánægðir með kynninguna.
Aron Bjarnason kynnti https://veistuhvar.is/ sem er leið til að hjálpa fyrirtækjum að skrá og finna hvar verkfærin eru. Fundarmenn voru á því að „appið“ væri einfalt, nákvæmt og áreiðanlegt verkfæra- og tímaskráningarkerfi.
Að lokum kynnti Elmar Erlendsson hjá HMS nýjustu talningu íbúða og sérstaka niðurstöður þar sem horft var til talningar í Hafnarfirði. Fundarmenn lýstu ánægju með að HMS haldi áfram talningu íbúða sambærilegt við það sem Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, hafði gert frá árinu 2007 því það auðveldi að bera saman tölur langt aftur í tímann.
Að öllum fyrirlestrum loknum voru umræður.