Fréttasafn



6. jan. 2025 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Sveitarfélög geta sparað hundruð milljóna með LED lýsingu

Gls_001„Það eru miklar hækkanir á raforkumarkaðinum og allir bera fyrir sig að það sé orkuskortur,“ segir Guðjón L. Sigurðsson, stofnandi Liska ehf., í frétt Morgunblaðsins í lok desember en hann hefur unnið sem ráðgjafi í fjölmörg ár fyrir bæði sveitarfélög og Vegagerðina. Í fréttinni kemur fram að niðurstöður útboða á raforkukaupum sveitarfélaganna sýni dæmi um allt að 55% hækkun frá september 2022 og sé þá verið að tala um söluhluta raforkunnar en Guðjón segir hækkun á flutningi og dreifingu mun minni eða um 17% að jafnaði. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Guðjón bendi á að Veitur hafi hækkað þennan hluta 12 sinnum á höfuðborgarsvæðinu frá ársbyrjun 2022 og segir að í útboði fyrir Kópavogsbæ í haust hafi þessi mikla hækkun verið ljós og bjóðendur gefið þá skýringu að þeir væru að kaupa orku á miklu hærra verði en áður og gætu ekki boðið betur. „Hins vegar kom það mér verulega á óvart hversu mikill verðmunur var á milli tilboða, en hæsta tilboðið var upp á 18,88 kr. á kílóvattstund meðan það lægsta var 11,47 kr. á kílóvattstund. Þetta er mjög mikill munur. Þá fannst mér sérkennilegt að aðeins þrjú fyrirtæki tækju þátt í útboðinu af þeim sjö sem eru í rammasamningi Ríkiskaupa á þessum markaði.“ 

Einnig kemur fram í fréttinni að Guðjón bendi á að sveitarfélög gætu sparað hundruð milljóna króna með því að skipta alfarið yfir í LED-lýsingu götuljósa. Ef öll götuljós á landinu, um 105 þúsund lampar, væru með LED-lýsingu væri árlegur sparnaður 1,4 milljarðar kr. Búið sé að skipta um helmingnum út og árlegur sparnaður því um 700 milljónir. Hafnarfjörður hafi lokið við sína LED-væðingu, Kópavogur sé langt kominn og Garðabær hyggist klára dæmið á næstu þremur árum. Þá kemur fram að um 67% götuljósa í Reykjavík séu með LED-perur.

Morgunblaðið, 31. desember 2024.

Hægt að spara 700 milljónir á ári ef öll sveitarfélög skipta yfir í LED

Í viðtali við Guðjón í Bítinu á Bylgjunni kemur fram að það sem gerist eins og með götulýsinguna að ef skipt er yfir í LED þá sparast orku að meðaltali 70%. Hann segir það margborga sig fyrir sveitarfélög að skipta yfir í LED ljósgjafa í götulýsingu, ljósgæðin og birtan sé sú sama og jafnvel betri. „Eins og ef við tökum til dæmis Reykjavík sem ég hef unnið mest fyrir. Þeir eiga eftir að endurnýja um einn þriðja af gatnalýsingunni og ef þeir gerðu það gætu þeir sparað hundrað milljónir á ári.“

Í viðtalinu við Guðjón á Bylgjunni kemur fram að hann telji að ef að öll sveitarfélög á landinu myndu skipta yfir í LED gatnalýsingu væri hægt að spara um 700 milljónir á ári og með hækkandi raforkuverði gæti sparnaðurinn verið enn meiri. „Það margborgar sig. Þegar við vorum að byrja á þessu fyrir sex, sjö árum þá var endurgreiðslutíminn í kringum fimm til sjö ár. Núna með hækkandi raforkuverði og svona stöðnun í verði á lömpum þá er þessi tími kominn í kringum tvö til fjögur ár.“ Hann segir að svona lampar eigi að endast í tuttugu til 25 ár.

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Guðjón í heild sinni.

Vísir, 2. janúar 2025.