Fréttasafn27. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Sveitarfélögin sofið á verðinum í framboði á lóðum

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í kvöldfréttum RÚV þar sem hann segir að sveitarfélög hafi sofið á verðinum hvað varðar framboð á lóðum. Í frétt Ingvars Þórs Björnssonar, fréttamanns, er fjallað um stöðuna á íbúðamarkaði og meðal annars vitnað til nýrrar þjóðhagsspár Íslandsbanka sem segir að lægð sé í framboði á nýjum íbúðum og eftirspurnarspenna á fasteignamarkaði. 

Í fréttinni kemur fram að munur sé á sveitarfélögum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og gagnrýnir framkvæmdastjóri SI að borgin úthluti ekki fleiri lóðum. „Staðreyndin er sú að sveitarfélögin standa sig misvel í þessu.“ Hann segir að Hafnarfjörður og Selfoss hafi úthlutað nýjum lóðum og eftirspurnin verið mikil. „Á móti sjáum við það að í stærsta sveitarfélagi landsins, Reykjavík, þar hefur uppbyggingu verið beint á þéttingarreiti en að mjög litlu leyti á ný svæði.“

Sigurður segir í fréttum RÚV að sveitarfélögin hefðu getað komið í veg fyrir stöðuna sem er komin á fasteignamarkaðinn. „Ég held að sveitarfélögin hafi að einhverju leyti sofið á verðinum vegna þess að vísbendingarnar um þetta voru komnar fram þegar árið 2019. Þannig að ef það hefði verið brugðist við því strax þá værum við ekki í þessari stöðu sem við erum í í dag. Það væri ekki slegist hér um hverja einustu íbúð og raðir í opnu húsin.“

RÚV, 26. maí 2021. 

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í fréttum RÚV.