Fréttasafn



29. apr. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Svört vika en eigum að vera fljót að ná viðspyrnu

Þetta voru mjög umfangsmiklar aðgerðir sem voru kynntar í gær og kannski það skref sem var beðið eftir. Þetta er svört vika, við höfum aldrei séð viðlíka uppsagnir eins og núna fyrir þessi mánaðarmót og sjálfsagt ekki búið. Þetta hjálpar til og gerir það að verkum að fyrirtækin geta fengið ákveðið skjól til að laga sig að þessum aðstæðum og koma svo inn þegar tækifærin koma að nýju og það mun gerast. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Bítinu á Bylgjunni í morgun þegar rætt var við hann og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA, um alvarlega stöðu efnahagslífsins. 

Þegar umræðan beinist að því hvað taki við þegar faraldurinn verður yfirstaðinn segir Sigurður að þá séum við komin í umræðu um framtíðina þar sem við þurfum að fara að huga fljótlega að því hvaðan verðmætin eiga að koma í framtíðinni. „Vegna þess að við viljum ná fyrri styrk. Við stóðum mjög vel og það var okkar gæfa og þess vegna erum við í miklu betri aðstæðum en önnur ríki og getum farið í svona umfangsmiklar aðgerðir og eigum að vera fljót að fara í viðspyrnu aftur. Það er svo sannarlega hægt.“ Hann segir að umgjörðin þurfi að vera þannig að hægt verði að ná viðspyrnu með umbótum á ýmsum sviðum eins og í menntakerfinu og innviðauppbyggingu en viðbótarframkvæmdir hins opinbera í innviðauppbyggingu séu núna 50 milljörðum meiri á þessu ári heldur en gert var ráð fyrir. 

Sigurður segist fagna því sérstaklega að aðgerðir stjórnvalda snúi líka að nýsköpun. „Ég fagna því sérstaklega að áhersla er á nýsköpun, rannsóknir og þróun, sem mun skapa störf og skapa ríkinu tekjur.“ Þá segir hann að svona ástand eins og nú sé geti hrundið af stað miklum breytingum og margar af þeim geti verið til góðs.

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við þá Sigurð og Halldór Benjamín í heild sinni.