Fréttasafn13. feb. 2015 Iðnaður og hugverk

Sykur er ekki ávanabindandi eitur

Nýlega opnaði Landlæknisembættið vefinn sykurmagn.is þar sem tekin eru dæmi um sykurinnihald ýmissa matvara og það umreiknað yfir í sykurmola. Ekkert er út á það að setja að starfsmenn Landlæknisembættisins sinni sínum störfum og hvetji landsmenn til hófsemi í neyslu á hvaða sviði sem er. Umfjöllin um sykur, sem fór í gang í kjölfarið, er hins vegar gagnrýniverð. Fjallað er um sykur eins og hann sé undirrót alls ills. Honum er kennt um offitufaraldur heimsins og flesta aðra sjúkdóma og fjölmiðlarnir gleypa við öllu gagnrýnislaust. Morgunútgáfan, á samtengdum rásum ríkisútvarpsins, fékk til sín ýmsa viðmælendur í því skyni „að finna sökudólg“ fyrir sykurneyslu þjóðarinnar svo notuð séu orð þáttastjórnanda. Matar- og sykurfíkniráðgjafi var fenginn til viðtals 9. febrúar. Hún hélt því blygðunarlaust fram að sérstaklega sykur, en einnig fita, salt og sterkja væru ávanabindandi á sama hátt og tóbak, áfengi og eiturlyf og þar með matvæli sem innihalda þessi efni. Hún gekk jafnvel svo langt að halda því fram að flestallur „framleiddur“ matur væri beinlínis hættulegur. Þáttastjórnendur samsinntu öllu án nokkurrar gagnrýni.

Þessar fullyrðingar eiga einfaldlega ekki við rök að styðjast. Fyrir því eru engin vísindaleg rök. Hópur vísindamanna birti yfirlitsgrein í virta vísindatímaritinu Neuroscience & Biobehavioral Reviews í nóvember 2014 þar sem þeir komast að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa farið í gegn um fjölda rannsókna um þetta efni, að ekki sé tilefni til að álykta að tilteknar matartegundir eða matvæli yfirleitt séu ávanabindandi. Hins vegar megi finna rök fyrir því að óhófleg neysla á mat sé hegðunarvandi sem geti snúist upp í ávana. Þ.e.a.s. ekki sé hægt að tala um matarfíkn eða sykurfíkn en frekar sé hægt að tala um átfíkn.

Íslenskir matvælaframleiðendur kunna því illa að vera taldir eiturbyrlarar. Það er lágmarkskrafa að fjölmiðlar skoði mál af gagnrýni áður en þeir láta steypa slíkum fullyrðingum yfir þjóðina.

Ragnheiður Héðinsdóttir, forstöðumaður matvælasviðs Samtaka iðnaðarins

Birt í Fréttalbaðinu 13. febrúar 2015