Tækifæri fyrir Costco að fjölga íslenskum vörum
„Samkvæmt okkar upplýsingum eru einungis um 2% vörunúmera í verslun Costco íslenskar vörur. Það eru því tækifæri fyrir Costco að fjölga íslenskum vörum í sinni verslun enda eru þær vörur neytendum að góðu kunnar. Þá eru einnig tækifæri fólgin í því að koma íslenskum vörum í dreifingu í verslunum Costco víða um heim. Það hefur verið fullyrt að Costco selji vörur undir kostnaðarverði en ekki var búist við slíku. Eins höfum við fengið fregnir af því að Samkeppniseftirlitinu hafi borist tugir ábendinga um þá háttsemi Costco. Slíkar ábendingar hljóta að vera teknar alvarlega og skoðaðar.“ Þetta kom meðal annars fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í pallborðsumræðum á Fjármálaþingi Íslandsbanka sem haldið var í gær.
Sigurður greindi einnig frá því að framundan væri fundur á vegum Samtaka iðnaðarins með fulltrúum Costco og íslenskum framleiðendum í byrjun nóvember. „Costco leggur upp úr gæðum og eru það góðar fréttir fyrir innlenda framleiðendur enda er íslensk framleiðsla gæðavara.“
Með Sigurði í pallborðsumræðunum voru Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, eigandi Lindex á Íslandi. Umræðunum stýrði Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka.