Tækifæri fyrir Evrópu í uppbyggingu jarðvarma
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI og formaður Grænvangs, flutti lokaávarp á ráðstefnunni Our Climate Future 2025 sem haldin var í Brussel 14. október. Þar lagði hann áherslu á mikilvægi jarðvarma sem lykilþáttar í sjálfbærri orkuuppbyggingu í Evrópu. Í ávarpinu sagði Sigurður að umræðan á ráðstefnunni hefði verið hvetjandi og skýr. Hann sagði jarðvarma ekki aðeins vera sögu Íslands heldur gæti orðið hluti af framtíðarsögu Evrópu.
Sigurður benti á að nýting jarðvarma snúi ekki eingöngu að hreinni orku, heldur einnig að efnahagslegum vexti, sjálfbærni og aukinni samkeppnishæfni. Evrópa hafi raunhæfa möguleika á að gera jarðvarma að einni af stoðum orkuskipta, orkuskipulags og sjálfstæðis á orkumarkaði.
Þrír lykilþættir til að hraða framþróun
Sigurður nefndi þrjá lykilþætti sem geti flýtt fyrir uppbyggingu jarðvarma í Evrópu:
-
Samræmd stefna milli loftslags-, orku- og iðnaðarstefnu.
-
Fjármögnun og áhættudreifing, þar sem virkja þarf bæði opinbert fé og einkafjármagn.
-
Hraðari leyfisveitingar og skilvirkara regluverk, svo nýsköpun geti þróast á þeim hraða sem samfélag og loftslag krefjast.
„Saga Íslands sýnir hvað hægt er að ná fram þegar framtíðarsýn, þrautseigja og samvinna fara saman. Við breyttum orkukerfi okkar með markvissri stefnu, fjárfestingu og samvinnu milli atvinnulífs og stjórnvalda. Í dag er yfir 90% íslenskra heimila hituð með jarðvarma og rúmlega 60% af allri frumorku þjóðarinnar kemur frá jarðvarma,“ sagði Sigurður.
Frá tækni til samfélagslegrar umbreytingar
Sigurður lagði áherslu á að umbreytingin á Íslandi hafi ekki aðeins verið tæknileg heldur samfélagsleg. „Hún byggðist á trausti milli borgara, atvinnulífs og stjórnvalda, og langtímasýn þvert á stjórnmál.“ Hann sagði mikilvægasta lærdóminn fyrir Evrópu vera að orkuskipti verði ekki knúin áfram af tækni einni saman, heldur af samvinnu, trú og stöðugleika.
Tækifæri til vaxtar og nýsköpunar
Sigurður sagði að jarðvarmi væri ekki aðeins hrein orka heldur efnahagslegt tækifæri. Á Íslandi hafi jarðvarmi orðið grunnur að grænni iðnaðaruppbyggingu, frá umhverfisvænni framleiðslu og matvælavinnslu til kolefnisföngunar og þróunar grænna orkugjafa. Þetta eru raunveruleg verkefni, starfandi fyrirtæki og útflutningsgreinar sem byggja á nýsköpun og skapa störf. Evrópa getur, með réttri stefnu og fjárfestingum, fylgt þessari leið og stækkað hana.
Ísland tilbúið til samstarfs
Að lokum undirstrikaði Sigurður að Ísland væri tilbúið til að vera samstarfsaðili Evrópu í orkuskiptum og uppbyggingu samkeppnishæfs, kolefnislauss hagkerfis. „Við höfum áratuga reynslu af tækni, regluverki og nýtingu orkuauðlinda. Við viljum vera með sem samstarfsaðili, ekki aðeins sem fyrirmynd.“
Sigurður hvatti til þess að nýta það tækifæri sem skapast með væntanlegri Geotherman Action Plan á vegum Evrópusambandsins á næsta ári og að „tíminn sé núna til að samræma stefnu, fjárfesta og hefjast handa.“ Í lok ávarpsins sagði Sigurður að jarðvarmi minni okkur á að stundum liggi lausnirnar beint undir fótum okkar. „Verkefni okkar er að koma þeim upp á yfirborðið með samvinnu, samræmdri stefnu og langtímasýn.“