Fréttasafn18. feb. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi

Tækifæri í grænni mannvirkjagerð

Grænni mannvirkjagerð var til umfjöllunar á rafrænum fundi sem fram fór í morgun. Að fundinum stóðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Samtök iðnaðarins í samvinnu við Grænni byggð, Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Vegagerðina og félagsmálaráðuneyti. Meðal frummælenda á fundinum var Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri JÁVERK og formaður mannvirkjaráðs SI, sem benti m.a. á að hagrænir hvatar séu ekki fyrir hendi og að þar leynist mikil tækifæri fyrir opinbera aðila. Auðveldara sé að byggja umhverfisvænt í eigin verkefnum heldur en í verkefnum á vegum hins opinbera. Hann sagði sömuleiðis innviði vera flöskuháls þegar kemur að umhverfisvænum orkugjöfum á byggingarsvæðum. 

Á fundinum var farið yfir tilgang verkefnisins Byggjum grænni framtíð, ferlið þar að baki, markmið þess og boðaðar lokaafurðir sem að óbreyttu munu liggja fyrir um mitt sumar nk. Fram kom á fundinum að meginviðfangsefni samstarfsins muni felast í að afla upplýsinga um losun mannvirkjagerðar á viðmiðunarárinu 2018, setja markmið um að minnka þá losun til 2030 og skilgreina aðgerðir svo það takist. Síðar á þessu ári verða niðurstöðurnar gefnar út í sérstökum Vegvísi að vistvænum mannvirkjum 2030. Einnig var umræða um áskoranir og tækifæri frá sjónarhorni atvinnulífs og sveitarfélaga. 

Á fundinum fluttu erindi auk Gylfa Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, HMS, verkefnastjóri Byggjum grænni framtíð, Sigríður Ósk Bjarnadóttir, VSÓ/HÍ, hópstjóri í hóp 6, mælingar, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Brynjólfur Bjarnason, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka. Fundarstjóri var Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri hjá Samtökum iðnaðarins.

Hægt er að nálgast erindin á heimasíðu Byggjum grænni framtíð ásamt upptöku af fundinum.

Graenni-byggd