Tækifæri í tækni með tvíþætt notagildi
Íslandsstofa, Samtök iðnaðarins og utanríkisráðuneyti stóðu fyrir fjölmennri ráðstefnu þriðjudaginn 25. mars um tækni með tvíþætt notagildi (e. dual use technology), til að mynda fyrir leit og björgun og lög- og landhelgisgæslu í öryggis- og varnarmálum.
Á viðburðinum sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica var farið yfir einkenni markaðarins, nýsköpun og fjárfestingar, þ.á.m. hraðla og sjóði, lög og reglur sem gilda og þarf að uppfylla til að starfa á þessum markaði og reynslu íslenskra fyrirtækja sem það hafa gert.
Ráðstefnustjóri var Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Kanada og meðal framsöguaðila voru aðilar frá hermálanefnd- og nýsköpunarhraðli NATO. Erla Tinna Stefánsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, stýrði pallborðsumræðum með fulltrúum íslenskra fyrirtækja sem hafa reynslu af þessum markaði. Meðal þátttakenda í pallborðinu voru félagsmenn SI, Hefring Marine og Artic Truck. Þá tók framkvæmdastjóri Teledyne Gavia þátt í pallborðinu auk íslenska félagsins Icewind sem er fyrsta íslenska fyrirtækið sem farið hefur í gegnum fyrrnefndan nýsköpunarhraðal NATO. Af umræðum fyrirtækjanna að dæma er þörf á stefnumarkandi ákvörðun varðandi afstöðu Íslands til öryggis- og varnarmála og eflingu á umgjörð stuðningskerfis fyrir öryggis- og varnarmál. Þá var samhljómur um að verðmætasköpun ætti sér stað hjá atvinnulífinu og að það væru mikil tækifæri fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki á þessum markaði þrátt fyrir áskoranir. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, flutti lokaávarp ráðstefnunnar þar sem hann sagði meðal annars að Ísland geti gegnt mikilvægu hlutverki ef við nýtum styrkleika okkar og vinnum saman að því að skapa vettvang fyrir tvíþættar tæknilausnir sem skipta máli – ekki aðeins í viðskiptum, heldur einnig á sviði öryggismála, alþjóðlegra samskipta og samfélagslegs stöðugleika.
Nánar á vef Íslandsstofu.