Fréttasafn



15. mar. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Tækifærin eru í hugverkaiðnaði

Í hlaðvarpsþætti Rafmyntaráðs segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI,  mikilvægt að styrkja gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og þar spili hugverkaiðnaðurinn lykilhlutverk. „Í desember 2020 var komin staðfesting á því að hugverkaiðnaðurinn er orðin fjórða stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Þá erum við með sjávarútveg, orkusækinn iðnað, ferðaþjónustuna og hugverkaiðnað. Við gerum ráð fyrir því að hugverkaiðnaður sé að skapa 15% af útflutningstekjum árið 2020. Hann hefur vaxið og tvöfaldast á nokkrum árum. Þetta eru auðvitað mikil gleðitíðindi fyrir efnahagskerfið og hagkerfið til framtíðar.“ 

Sigríður segir að tækifærin séu í hugverkaiðnaði. „Við erum komin að endamörkum í vexti annarra útflutningsatvinnuvega sem byggja mest megnis á auðlindanýtingu. Hérna þurfum við að fara að horfa í aðra átt og hugverkaiðnaðurinn getur, ef rétt er haldið á spöðunum, orðið stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigríði í heild sinni á YouTube:

https://www.youtube.com/watch?v=K9QNGTBK0zU