Fréttasafn



13. okt. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Tækifærin háð frekari orkuvinnslu

Í Morgunblaðinu er rætt við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar og hugverksviðs SI, og Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls, vegna orkukreppu á meginlandi Evrópu þar sem orkuverð hefur ríflega tvöfaldast á stærstu mörkuðum. 

Samkeppnisforskot að hér eru 99,9% orkunnar nú þegar endurnýjanleg

Sigríður segir líklega um skammtímasveiflu að ræða og raunar sé búist við að orkuverðið fari aftur lækkandi, í ljósi stóraukinnar áherslu á framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Sú framleiðsla verði að hluta niðurgreidd með ívilnunum og það muni aftur hafa áhrif á samkeppnisstöðu Íslands. „Þannig að við þurfum að nýta okkar samkeppnisforskot sem snýr ekki aðeins að orkuverði og sveiflum á því heldur þeirri staðreynd að hér eru 99,9% orkunnar nú þegar endurnýjanleg. Tækifærin sem geta skapast hér á landi eru hins vegar háð því að frekari orkuvinnsla eigi sér stað.“

Orkuskortur í Kína skýrir að hluta hækkandi álverð

Pétur segir í frétt Morgunblaðsins að orkuskortur í Kína skýri að hluta hækkandi álverð en álframleiðslan þar sé fimm milljónum tonna minni en ella. Í Morgunblaðinu kemur fram að álverð hafi í gær farið yfir 3.100 dali í kauphöllinni í London og hafi það ekki gerst síðan 2008.

Morgunblaðið / mbl.is, 13. október 2021.

Morgunbladid-13-10-2021