Fréttasafn17. jan. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Nýsköpun

Tækninám á Íslandi annar ekki eftirspurn í hugverkaiðnaði

Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í Fréttablaðinu þar sem fjallað er um hugverkaiðnað á Íslandi. Þar segir að sá iðnaður sé í stórsókn en svo mikill vöxtur hafi hlaupið í atvinnugreinina að ráðningafyrirtæki hafi ekki undan við að útvega nýsköpunarfyrirtækjum á þessu sviði vel menntað tæknifólk. Sigríður  segir að félagsmenn SI hafi orðið varir við það á síðustu mánuðum og misserum, en vöxturinn sé þar að auki staðfestur í opinberum hagtölum „Hugverkaiðnaðurinn er orðinn jafn stór og íslenskur sjávarútvegur hvað varðar verðmæti útflutnings og stefnir fram úr honum á næstunni. Verðmæti útflutningsins í þessari grein hefur tvöfaldast frá 2013 og allt bendir til þess að hugverkaiðnaðurinn verði stærsta og verðmætasta útflutningsgrein Íslands innan örfárra ára.“ 

Þá segir Sigríður að vaxtartækifæri greinarinnar séu gríðarlega mikil til framtíðar. „Og eru líklega meiri en við gerum okkur grein fyrir.“ En hún bendir jafnframt á ógnun: „Við stöndum ef til vill frammi fyrir náttúrulegum hindrunum í þessum atvinnugeira.“ Þar á hún við að tækninámið á Íslandi anni ekki þeirri ríku eftirspurn sem er eftir starfsfólki í greinina. „Framhaldsnámið hér á landi verður að fara að taka meira mið af þróttmiklum vexti framsækinna nýsköpunarfyrirtækja hér á landi.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 15. janúar 2021. 

Frettabladid-15-01-2022