Fréttasafn



8. nóv. 2016 Almennar fréttir

Team Spark að hefja framleiðslu á TS17

Stefnt er að því að framleiðsla á TS17 hefjist í lok nóvember en um er að ræða kappakstursbíl sem verkfræðinemar við Háskóla Íslands hanna og smíða frá grunni. Kappakstursbíllinn er síðan notaður í keppnum erlendis þar sem keppt er við háskólanema víðsvegar að úr heiminum í hönnun, smíði og kappakstri. Samtök iðnaðarins styrkja Team Spark sem hefur tekið þátt í kappaksturskeppnum frá árinu 2011. Eitt af markmiðum Team Spark er að vekja áhuga á tækni og nýsköpun í samfélaginu.

Í nýju fréttabréfi Team Sparks kemur fram að í byrjun mánaðarins fóru nokkrir liðsmenn upp í Bláfjöll með kappakstursbílinn TS16 þar sem tekið var upp kynningarmyndband af bílnum til að sýna helstu eiginleika hans. Framundan hjá Team Spark er umsjón með legókeppni grunnskólanna sem fer fram 12. nóvember næstkomandi þar sem grunnskólanemendur keppa með rafmagnsknúið vélmenni úr legókubbum. Þá verður TS16 til sýnis á ráðstefnunni Bílar, fólk og framtíðin 17. nóvember þar sem liðsmenn munu kynna bílinn fyrir ráðstefnugestum. Liðsmenn Team Spark kynntu bílinn í Borgarholtsskóla fyrir skömmu. Við það tækifæri prófaði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, bílinn eins og sjá má á myndinni.