Fréttasafn12. okt. 2018 Almennar fréttir Menntun

Team Spark þakkar SI fyrir

Fulltrúi Team Spark kom við á skrifstofu Samtaka iðnaðarins í morgun með þakkarbréf og mynd, en undanfarin ár hafa samtökin verið meðal stoltra styrktaraðila Team Spark sem er lið verkfræðinema við Háskóla Íslands sem hanna og smíða rafkappakstursbíla til keppni á alþjóðlegum vettvangi. Um er að ræða Formula Student keppni þar sem lið frá mörgum af bestu tækniháskólum heims keppast um að smíða besta kappakstursbílinn. Í þakkarbréfinu kemur meðal annars fram að ómetanleg sambönd, reynsla og þekking sé hluti af því sem styrktaraðilar miðla til liðsins ár eftir ár og fyrir það eru þátttakendurnir ákaflega þakklátir. Í bréfinu segir jafnframt að þetta frábæra og einstaka samstarf háskólanema og fyrirtækja sé ómetanlega verðmætt og ein helsta ástæða þess að verkefnið lifir áfram.

Team Spark kynnir verkefnið í grunnskólum 

Team Spark hefur komið að ýmsum verkefnum innan samtakanna, meðal annars í tengslum við GERT verkefnið sem Samtök iðnaðarins ásamt öðrum stendur fyrir í grunnskólum landsins og gengur út á það að efla áhuga grunnskólanema á raunvísindum og tækni. Þá hafa liðsmenn haldið kynningar í grunnskólum landsins, kynnt hvað þau eru að læra og hvernig það tengist hönnun bílsins. 

Team Spark keppti á Spáni 

Frá árinu 2011 hefur Team Spark tekið þátt í Formula Student keppnisröðinni sem er haldin út um allan heim á hverju ári. Í sumar hélt liðið í fyrsta sinn til Spánar til að taka þátt í Formula Student Spain. Keppnin var haldin á Circuit de Barcelona-Catalunya, sem er virt braut í kappakstursheiminum. Það var mikil upplifun fyrir liðsmenn að standa í sömu sporum og fá að keyra sömu braut og fremstu ökuþórar heims og ekki skemmdi fyrir að liðið hlaut verðlaun fyrir besta liðsandann í keppninni.

Á myndinni tekur Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá SI (t.v.), við þökkunum frá Magneu Haraldsdóttur, stærðfræðinema og hópstjóra framkvæmdahóps Team Spark.