Fréttasafn



17. okt. 2016 Almennar fréttir

Tengja fólk og fyrirtæki

Vilja tengja fólk og fyrirtæki betur er fyrirsögn fréttar sem Agnes Bragadóttir, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifar um Kjósum gott líf, auglýsingaherferð SI:  

Samtök iðnaðarins (SI) hafa að undanförnu staðið fyrir auglýsingaherferð, undir kjörorðinu „Kjósum gott líf“. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI segir að það séu vissulega nýmæli, að SI blandi sér með óbeinum hætti í kosningabaráttuna, vegna komandi alþingiskosninga, en hann segir að systursamtök SI í nálægum löndum geri þetta iðulega.

„Þetta eru vissulega nýmæli hjá SI, að blanda sér í kosningabaráttu með þessum hætti, en í löndunum í kringum okkur, gera sambærileg samtök þetta með sama hætti. Með þessari herferð erum við að vekja athygli á iðnaðinum í landinu og því hversu miklu máli hann skiptir,“ sagði Almar í samtali við Morgunblaðið í gær. SI sé upptekið af því um þessar mundir að tengja betur veruleika fyrirtækjanna og þeirra sem starfa hjá þeim, við orðræðuna í landinu.

Lífæð heilbrigðs samfélags

Almar segir að þeim hjá SI þyki mikilvægt að leggja fram málefni og stefnu SI varðandi þau. „Við útlistum mikilvægi þess að hér sé efnahagslegur stöðugleiki; nauðsyn þess að allir hafi öruggt húsnæði sem er grunnþörf allra, bæði yngri og eldri kynslóða; við útlistum þá skoðun okkar að menntun og þekking fólks á öllum sviðum sé forsenda aukinnar framleiðni, velferðar og verðmætasköpunar; sömuleiðis að samgöngur og góðir innviðir séu lífæð heilbrigðs samfélags; við bendum á nauðsyn þess að fjölbreyttur iðnaður sé í sátt við umhverfið og að nýsköpun sé drifkraftur verðmætasköpunar og gjaldeyrisöflunar fyrir land og þjóð. Við leggjum málefnin á borðið og segjum: Fyrir þetta viljum við standa. Þessi málefni teljum við mikilvæg og að þau eigi að hljóta umræðu í pólitíkinni,“ sagði Almar.

„Við viljum með þessari herferð okkar tengja almenning og atvinnulífið betur saman. Hér er ekkert gott líf nema samfélagssáttmálinn haldi og allur almenningur, hið opinbera og fyrirtækin vinni saman að framförum,“ sagði Almar.

Almar segir það hafa verið mjög ánægjulegt að sjá niðurstöður í þeim könnunum sem Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafi gert, sem sýni að sá aðili sem nýtur mests trausts í landinu er vinnuveitandinn. „Þegar almenningur er spurður hvar liggur traustið, þá skorar vinnuveitandinn hæst, hjá þeim sem spurðir eru,“ sagði Almar.

Erum ópólitísk samtök

Aðspurður hvort SI óttaðist ekki að fá á sig pólitískan stimpil, með herferð sem þessari, sagði Almar: „Við lítum á okkur sem ópólitísk samtök, sem eru samtök 1400 fyrirtækja. Innan okkar raða eru menn með alls konar pólitískar skoðanir. Ég held að það sé mjög margt í því sem við erum að segja sem höfði til margra flokka, t.d. um húsnæðis- og menntamál sem okkur sýnist vera breið samstaða um.“

Aðspurður kvaðst Almar ekki reiðubúinn að upplýsa hvað auglýsingaherferð SI kostar.

Morgunblaðið, blaðamaður: Agnes Bragadóttir, 15. október 2016.