Fréttasafn



17. sep. 2025 Almennar fréttir Menntun

Tengja nemendur og atvinnulíf á starfamessum á Vesturlandi

Þrjár starfamessur verða haldnar á Vesturlandi í haust með það að markmiði að tengja nemendur og atvinnulíf og kynna fjölbreytt námstækifæri og störf fyrir ungu fólki á svæðinu. Fyrirtækjum innan Samtaka iðnaðarins er boðið að taka þátt og nýta tækifærið til að hitta framtíðarstarfsfólk.

Starfamessurnar eru hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands 2025 og er tvinnað við GERT-verkefnið – samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga. GERT-verkefnið hefur það markmið að brúa bilið milli menntunar og framtíðarþarfa á vinnumarkaði og stendur skammstöfunin fyrir: Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni.

Dagskrá starfamessanna

Messurnar fara fram í öllum framhaldsskólum á Vesturlandi:

  • Menntaskóli Borgarfjarðar í Borgarnesi (MB) – 26. september
  • Fjölbrautaskóli Snæfellinga í Grundarfirði (FSN) – 30. september
  • Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi (FVA) – 3. október

Á messunum gefst nemendum kostur á að kynnast fjölbreyttum störfum, námsleiðum og tækifærum sem standa til boða á svæðinu. Fyrirtæki og stofnanir kynna starfsemi sína og leitast við að skapa tengsl við ungt fólk, sem er að móta val sitt um framtíðarnám og starfsferil.

Beint samtal og virkt kynningarstarf

Áhersla er lögð á virkt samtal milli nemenda og atvinnulífsins. Meðal annars verður boðið upp á ratleik og aðrar gagnvirkar leiðir til að virkja þátttakendur og auka áhuga þeirra á þeim færniþáttum sem skipta máli í framtíðarstörfum.

Hvatning til fyrirtækja innan SI

Samtök iðnaðarins hvetja fyrirtæki á Vesturlandi til að taka þátt í starfamessunum og nýta tækifærið til að kynna starfsemi sína og framtíðartækifæri fyrir ungu fólki í heimabyggð. Slíkt samstarf styrkir tengsl atvinnulífs og menntakerfis og stuðlar að öflugra starfsumhverfi til framtíðar.

Fyrir nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við Huldu Birnu Kjærnested Baldursdóttur, sérfræðing í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, hulda@si.is.

Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar.