Fréttasafn8. feb. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Það mun ekkert breytast fyrr en fleiri íbúðir verða byggðar

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að stjórnvöld taki þetta mjög föstum tökum því eins og bent hefur verið á þá er húsnæðisliðurinn stór þáttur af verðbólgunni í dag og við getum rætt um það hvernig á því standi en það mun ekkert breytast fyrr en að fleiri íbúðir verða byggðar. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í þættinum Vikulokin á Rás 1 þar sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir ræðir um verðbólguna og húsnæðismarkaðinn við Sigurð ásamt Kristrúnu Frostadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum.

Sigurður segir alveg sama hvað verði farið í mikið af úrræðum á eftirspurnarhliðinni að þá þurfi að leysa vandann með því að byggja fleiri íbúðir. „Þetta eru margvíslegar aðgerðir sem þurfa að vinna saman. Ef við horfum á staðreyndir mála þá er við teljum íbúðir í byggingu tvisvar á ári og í síðustu talningu þá voru um 3.400 íbúðir í byggingu á þeim svæðum sem við teljum. Þær hafa ekki verið færri síðan 2017. Það segir okkur þá soldið um framtíðina næstu tvö þrjú árin kannski.“ 

Sigurður segir allar hillur tómar. „Fyrir einhverju síðan voru 2.200 íbúðir á sölu en núna eru þær undir 500 þannig að markaðurinn er bara nokkurn veginn horfinn og við bara áttum okkur alveg á því sjálf. Þó maður hefði áhuga á því að skipta um húsnæði þá mundi maður aldrei setja eignina sína á sölu áður en maður er búinn að finna einhverja aðra eign bara vegna þess hvernig markaðurinn er í dag. Markaðsmyndunin verður ekki eðlileg við þessar aðstæður.“ 

Hann segir íbúðarþörfina ekki langt frá 4.000 íbúðum á ári. „Við sjáum til dæmis að fólksfjölgun í fyrra var miklu meiri heldur en spáð var. Ef við miðum við að það séu að jafnaði 2,2 í íbúð þá eru þetta 3.700 til 4.100 íbúðir sem þarf í ár og á næsta ári. Við erum að gera ráð fyrir því að það komi um 5.000 íbúðir inn á markaðinn þannig að það er skortur upp á tæplega 3.000 íbúðir þá í ár og á næsta ári. Við erum ekkert að sjá fram á að þetta lagist.“ 

Innviðaráðuneytið jákvætt skref

Sigurður segir nýtt innviðaráðuneyti mjög jákvætt skref. „Loksins eru þessir málaflokkar komnir saman í eitt ráðuneyti, skipulagsmál, byggingamál, húsnæðismál. Það eru þá forsendur til þess að taka á því. Það er kannski fyrsta skrefið hjá ríkinu, lög og reglugerðir eru annað sem þarf til að laga hluti. Stofnanir hafa verið sameinaðar að einhverju leyti. Við erum með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem er mjög öflug og hefur farið í stafræna stjórnsýslu sem þýðir á mannamáli að smám saman er að verða yfirsýn yfir markaðinn. Hvað eru margar íbúðir í byggingu á hverjum tíma, hvar eru þær í byggingu, hvernig íbúðir eru í byggingu og svo framvegis. Þannig að þá skapast aðstæður eða forsendur fyrir aðra til þess að ákveða um það hvernig framtíðaruppbygging verður. Þannig að þetta skiptir máli.“

Lóðaskortur og skipulag sem styður ekki við uppbyggingu 

Hvað sveitarfélögin varðar segir Sigurður að þar sé lóðaskortur og skipulagið heilt yfir styðji ekki alveg við þá uppbyggingu sem að þarf að vera. „Sveitarfélögin eru eins misjöfn og þau eru mörg, þau eru 69 á landinu. Sum eru að standa sig mjög vel, önnur síður. Í rauninni má segja að öllum sveitarfélögum finnst þau vera að standa sig mjög vel en þegar við leggjum saman áform þeirra að þá er gríðarlegt bil.“

Hér er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni.

Rás 1, 5. febrúar 2022.