Fréttasafn



25. nóv. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Það notar enginn umbúðir að óþörfu

„Það notar enginn umbúðir að óþörfu. Sá sem framleiðir vöru vill selja vöruna, ekki umbúðir. En umbúðir verja vöru fyrir skemmdum og skila henni heilli til notenda. Stundum geta okkur virst umbúðir óþarflega miklar en skýringin getur legið í því að varan þarf að komast frá framleiðanda en ekki bara frá verslun og heim,“ sagði Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs Samtaka iðnaðarins á málþingi sem Reykjavíkurborg og Umhverfisstofnun stóðu fyrir í gær í Ráðhúsi Reykjavíkur. ,,Umbúðir – hvenær nauðsyn og hvenær sóun“ var yfirskrift málþingsins. 

Í máli hennar kom einnig fram að hönnuðir umbúða horfi til þess að nota sem minnst magn umbúða sem hægt er að komast upp með til að tryggja öryggi vörunnar. ,,Það þarf að vera auðvelt að flytja vöruna og hún þarf að pakkast vel í gáma og flutningabíla. Önnur sjónarmið spila einnig inn í svo sem aðferðir við pökkun, hillupláss, útlit og ímynd. Umhverfisáhrifin sem verða við framleiðslu á vöru sem er hent eru öll til einskis ef varan eyðileggst á leiðinni til verslunar. Frá sjónarmiði umhverfismála þá stuðla umbúðir þannig að minni sóun því þær minnka rýrnun í flutningum og geymslu. Of mikið af umbúðum er hins vegar einnig sóun. Til að lágmarka sóun þarf að huga að þessu jafnvægi og nota ekki of mikið af umbúðum en heldur ekki of lítið. Því léttari sem umbúðir eru því minni er kolefnislosun sem þær valda í flutningum.“

Hún nefndi einnig að vandinn með umbúðir liggi í kerfunum okkar því þær skili sér ekki til endurvinnslu og finnist út í náttúrunni. ,,Umbúðir eiga ekki heima út í sjó. Við þurfum að tryggja að kerfin okkar taki við þeim til endurvinnslu en plast, pappi og ál eru allt efni sem henta vel í það. Mikil þróun er í niðurbrjótanlegum efnum sem geta farið í jarðgerð. Umbúðir og endurvinnsla eru loftslagsmál og eitt af því sem stjórnvöld ættu að styrkja nú þegar áhersla eykst á minni losun gróðurhúsalofttegunda.“

Erindi Bryndísar má nálgast hér

Hér er hægt að hlusta á þáttinn Samfélagið á Rás 2 fimmtudaginn 24. nóvember þar sem rætt var við Bryndísi og Garðar Eyjólfsson frá Listaháskóla Íslands um umbúðanotkun.