Fréttasafn26. feb. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Menntun Samtök rafverktaka

Þarf að fylla 160 stöður rafvirkja árlega næstu 5 árin

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, segir í frétt Morgunblaðsins að frá 2018 til 2023 hafi að meðaltali 142 einstaklingar lokið sveinsprófi í rafvirkjun en reiknað sé með að íslensk rafiðnaðarfyrirtæki þurfi að fylla um 160 stöður rafvirkja árlega á næstu fimm árum. „Þá er eftir að taka tillit til þeirrar uppsöfnuðu þarfar sem hefur myndast í greininni, og eins þarf að taka með í reikninginn að alls ekki allir sem ljúka sveinsprófi ákveða að starfa við rafvirkjun enda þykir iðnnámið góður grunnur fyrir áframhaldandi nám af ýmsum toga.“ 

Í fréttinni kemur fram að samkvæmt nýrri greiningu SI sé verulegur skortur á rafvirkjum á Íslandi og sá fjöldi sem útskrifast árlega með sveinspróf í rafvirkjun langt undir áætlaðri meðalþörf fyrirtækja í rafiðnaði.  Einnig að fyrirtæki í rafiðnaði geri ráð fyrir að ráða um 940 manns á næstu fimm árum, þar af 800 rafvirkja. Jafnframt sögðu 67% stjórnenda fyrirtækja í rafiðnaði að á undanförnum árum hefðu erfiðleikar við að manna lausar stöður valdið því að rekstur þeirra óx hægar en hann hefði annars gert. „Þær tölur sem koma fram í könnuninni gera ekki ráð fyrir áhrifum þeirra metnaðarfullu áforma sem eru uppi hjá stjórnvöldum um að greiða leið orkuskipta og auka raforkuframleiðslu, og því er líklega þörf á mun fleiri rafvirkjum en könnunin gefur til kynna,“ segir Jóhanna Klara í Morgunblaðinu og bætir við að vöntun á menntuðum iðnaðarmönnum komi fram víðar í atvinnulífinu.

Morgunblaðið, 26. febrúar 2024. 

Morgunbladid-26-02-2024