Þarf að horfa langt fram í tímann í orkumálum landsins
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt Ragnars Jóns Hrólfssonar hjá RÚV um hækkun raforkuverðs sem kemur fram í greiningu SI að hækkun á raforkuverði þrátt fyrir lækkun verðbólgu endurspegli þá stöðu að raforkuframleiðsla hafi ekki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins, þar á meðal fólksfjölgun. Kyrrstaða hafi verið rofin með afgreiðslu rammaáætlunar ásamt fleiru en þörf sé á því að horfa lengra fram í tímann í orkumálum. Sigurður: „Vandamálið er það að það tekur að lágmarki tólf ár að undirbúa vatnsaflsvirkjun með leyfisveitingum og framkvæmdum þannig að það þarf að horfa mjög langt fram í tímann þegar kemur að orkumálum landsins. Það var því miður ekki gert um langt skeið og við erum að súpa seyðið af því núna.“
Langt í að ný raforka komi inn í kerfið
Í frétt RÚV kemur fram að nokkuð langt sé í að ný raforka komi inn á kerfið. „Búrfellslundur, framkvæmdir þar eru að fara af stað þannig að orka þaðan kemur eftir tvö til þrjú ár.“ Sigurður nefnir einnig að um fjögur til fimm ár séu þangað til raforka taki að berast frá nýrri Hvammsvirkjun. „Þetta tekur allt mikinn tíma og fram að því verður staðan mjög þröng.“
Versnar enn frekar á næstu árum
Þá segir Sigurður í frétt RÚV að hækkanirnar hafi áhrif bæði á heimili landsins og fyrirtæki en að verð á raforku til fyrirtækja hafi hækkað meira heldur en til heimila. „Þannig að heimilin hafa verið í ákveðnu skjóli þangað til núna síðustu mánuðina. En við höfum áhyggjur af því að þetta sé að versna og muni versna enn frekar á næstu árum þangað til meiri raforka kemur inn á kerfið.“
Meiri rafmagnsnotkun á sama tíma og raforkuverð hækkar
Í frétt RÚV kemur fram að SI greini hækkun á raforkuverði frá því raforkumarkaður tók til starfa í vor, frá því í sumar hafi verð á raforkumarkaði hækkað um 32-34% og telja samtökin að búast megi við enn meiri hækkun í raforkuverði. „Þetta kemur á sama tíma og það er mikil umræða um orkuskipti í samfélaginu og margir hafa fylgt því og fjárfest til dæmis í rafbílum og nota þar af leiðandi meira rafmagn heima fyrir og í fyrirtækjum heldur en áður og á sama tíma er þá raforkuverðið að hækka umtalsvert.“
Ferli framkvæmda tekur fleiri ár og jafnvel áratugi
Þá segir Sigurður í frétt RÚV að einnig sé full ástæða til að styrkja raforkuinnviði og dreifikerfi landsins svo mögulegt sé að flytja betur þá raforku sem kemur til með að skapast í framtíðinni „En þetta tekur mikinn tíma og þá komum við að því umfjöllunarefni að það er býsna erfitt að framkvæma á Íslandi. Ferlið er langt, ferlið er flókið þannig að ferli framkvæmda getur tekið fleiri ár og jafnvel áratugi eins og við höfum séð. Það á ekki bara við í raforkumálum, það á líka við á fleiri sviðum, við þekkjum þetta með Suðurnesjalínu 2 og við þekkjum þetta með Teigsskóg og það eru fjölmörg önnur dæmi. Þetta er hnútur sem verður að höggva á.“
RÚV, 6. desember 2024.