Fréttasafn



24. nóv. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Þarf að hugsa marga hluti upp á nýtt

„Ég mun koma algerlega með opnum huga inn í starfið, það þarf að hugsa marga hluti upp á nýtt, þá sérstaklega hvernig við nálgumst þetta gríðarlega stóra verkefni að skipa Ísland í sess samkeppnishæfustu þjóða í nýsköpun og hugverkaiðnaði,“ segir Sigríður Mogensen, nýráðin sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, í viðtali í Viðskiptablaðinu. 

Sigríður sem mun hefja störf hjá samtökunum um áramótin lítur á starfið sem áskorun um að koma á og fylgja eftir mikilvægum breytingum. „Ég lít á þetta sem mikla áskorun, að vekja athygli á þessu og þrýsta á að þær breytingar, sem þurfa að eiga sér stað, nái fram að ganga á næstu árum. Að leggja grunn að enn kraftmeiri nýsköpun og hugverkaiðnaði sem gagnast þvert á allar atvinnugreinar. Rótgróin fyrirtæki í hefðbundnum iðngreinum þurfa á nýsköpun að halda til að vaxa enn frekar og dafna og þurfa hvata til þess að stunda rannsóknir og þróun á Íslandi. Ef hann er ekki til staðar þá er hætt við að fyrirtæki flytji rannsóknar og þróunareiningar sínar annað og þá missum við af lestinni,“ segir hún í viðtalinu.

Hún hefur undanfarið starfað hjá í Deutsche Bank í London en er að flytja heima aftur ásamt fimm ára gamalli dóttur sinni. 

Viðskiptablaðið, 23. nóvember 2017.