Fréttasafn



28. okt. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Þarf að vera stöðug uppbygging íbúða í takti við þarfir

Í nýjasta tölublaði Vísbendingar er fjallað um húsnæðismál á Íslandi frá ólíkum sjónarhornum. Þar er að finna grein eftir Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, undir yfirskriftinni Stöðug uppbygging íbúða og innviða í takti við þarfir.

Í greininni segir Ingólfur meðal annars að ójafnvægi hafi verið á íbúðamarkaði á síðustu árum. Ekki hafi nægjanlega mikið verið byggt af nýju íbúðarhúsnæði til að mæta þörfum landsmanna. Framboð nýs íbúðarhúsnæðis hafi ekki haldið í við vaxandi eftirspurn, sem hafi leitt til mikillar hækkunar á húsnæðisverði, aukinnar verðbólgu og hærri vaxta. Hann segir að þetta ójafnvægi hafi skert samkeppnishæfni hagkerfisins, þar sem takmarkað aðgengi að íbúðum og hátt verð, aukin verðbólga og háir vextir geri einstaklingum og fyrirtækjum erfitt um vik. Jafnvægi á íbúðamarkaði sé grundvallarforsenda stöðugs verðlags, velferðar og aukinnar samkeppnishæfni. 

Ingólfur segir að til að tryggja jafnvægi á íbúðamarkaði þurfi að auka framboð nýrra íbúða. Það kalli á skýra stefnu ríkis og sveitarfélaga og aukið framboð lóða til byggingar. Mikilvægt sé að fjölbreytni sé í uppbyggingu íbúða, hvort sem það snýr að stærð, gerð eða staðsetningu, til að mæta þörfum ólíkra hópa samfélagsins. Þá segir Ingólfur að stjórnvöld hafi unnið ötullega að umbótum á þessu sviði undanfarin ár og að tillögum átakshópa hafi verið hrint í framkvæmd og húsnæðisstefna sett. En betur má ef duga skal, segir Ingólfur í greininni. 

Visbending-grein-IB-1Visbending-grein-IB-2

Forsida_1729862612045

Hér er hægt að nálgast blaðið fyrir þau sem eru með áskrift.