Fréttasafn3. nóv. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Þarf framboð á lóðum

Rætt er við Vignir Halldórsson hjá MótX í útvarpsþættinum Í bítinu á Bylgjunni um ný hlutdeildarlán en lög um þau tóku gildi um mánaðarmótin. Vignir segir lánin góða lausn ef rétt er að málum staðið. „Það þarf margt að koma til, það þarf að vera framboð á lóðum, það þarf að vera hægt að framkvæma þetta svo vel sé. Það þýðir ekki að vera með einhverja þéttingarreiti undir í svona löguðu. Þetta hugnast mér betur heldur en þessi óhagnaðardrifnu félög sem hefur verið mikið púkkað undir, sérstaklega í Reykjavík.“

Vignir nefnir Bjarg sem dæmi. „Manni finnst að það sé verið að leiða fólk inn í fátækragildri í þessu kerfi. Þú þarft að hafa x lág laun til að fúnkera í systeminu, hvað ef þér gengur svo betur í lífinu, er þér þá bara hent út úr systeminu? Þarna er ríkið að kaupa með þér hlut í íbúðinni svo vænkast kannski þinn hagur í framtíðinni, þá geturðu bara keypt ríkið út. Ert ekkert settur í einhverja fjötra.“

Vignir segir þetta snúast um að búa til þessar aðstæður. „Það þýðir ekki að vera að moka undir allskonar óhagnaðardrifin félög eins og er vinsælt í borginni, moka undir þau endalaust með niðurgreiddar lóðir, ódýrar lóðir, og svo við á hinum frjálsa markaði fáum eina og eina lóð á uppsprengdu verði með allskonar innviðagjöldum. Svo eins og ráðherra kom fram núna um daginn og var að skammast út í verktaka að vera að smyrja á. Það er nú bara rangt.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Vigni í heild sinni.