Fréttasafn31. ágú. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Þarf frekari aðgerðir til að örva efnahagslífið til vaxtar

Samtökum iðnaðarins þykir líklegt að hagvöxturinn verði hægur á næsta ári nema gripið verði til frekari aðgerða í opinberum fjármálum og peningamálum til þess að örva efnahagslífið til vaxtar. Með umfangsmiklum og réttum aðgerðum í hagstjórn má hins vegar skapa hagkerfinu kröftuga viðspyrnu sem skilar vexti langt umfram næsta ár. Með þeim hætti er best tryggð sjálfbærni í ríkisrekstrinum – halla snúið í afgang með því að lækka kostnað og laga hann að sterkari tekjuhlið ríkisfjármála. Þetta segir meðal annars í umsögn SI um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022, 968. mál, sem send hefur verið fjárlaganefnd Alþingis. 

Beita á opinberum fjármálum með virkum hætti 

Þá kemur fram í umsögninni að í stað hagvaxtar hafi tekið við mesti samdráttur í landsframleiðslu í um 100 ár. Verkefni hagstjórnar hafi því á tiltölulega skömmum tíma snúist úr því að draga úr þenslu yfir í að milda þennan mikla samdrátt. Verkefnið hafi verið og sé að beita opinberum fjármálum með virkum hætti til að vega á móti niðursveiflunni og stuðla að jafnvægi á milli framleiðslugetu og eftirspurnar í samspili við stjórn peningamála. 

Í umsögninni benda Samtök iðnaðarins á að mikilvægt sé að forgangsröðun í ríkisfjármálum endurspegli þá meginþætti sem líklegastir eru til að efla samkeppnishæfni Íslands um þessar mundir og undirbyggja þar með kröftuga viðspyrnu hagkerfisins, fjölgun starfa og bætt lífskjör landsmanna litið til framtíðar. Í því sambandi lýsa SI ánægju sinni með það sem fram kemur í greinargerð tillögunnar um að sköpuð verða skilyrði fyrir nýju vaxtar- og framfaraskeiði í verðmætasköpun í efnahagslífinu með umfangsmiklu framkvæmdaátaki og arðbærum fjárfestingum í menntun og nýsköpun. Einnig fagna samtökin þeim áformum sem ætlað er að bæta starfsumhverfi fyrirtækja. Ráða þessir þættir miklu um samkeppnishæfni Íslands til framtíðar líkt og undirstrikað er í stefnu Samtaka iðnaðarins og bent er m.a. á í skýrslu samtakanna Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina.

Hagvöxtur minni en kemur fram í spá Hagstofunnar

Einnig kemur fram í umsögninni að fjármálastefnan byggi á efnahagshorfum sem komu fram í uppfærðri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá því í júní síðastliðnum en um sé að ræða nokkuð gamla spá enda hafa aðstæður breyst töluvert frá þeim tíma, bæði hérlendis og erlendis, og að hagvöxtur á næsta ári gæti því hæglega orði minni en gert sé ráð fyrir í spá Hagstofunnar. Í umsögninni segir að samtökin séu ekki sannfærð um að þær sviðsmyndir sem séu í greinargerð með tillögunni gefi nægilega skýra heildarmynd á mögulega þróun efnahagsmála og því hefðu samtökin viljað sjá fleiri og ítarlegri sviðsmyndir. 

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.