Fréttasafn18. des. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Þarf samstillt átak atvinnulífs og stjórnvalda í loftslagsmálum

Loftslagsvandinn er ein af stærstu áskorunum samtímans. Þjóðir heims hafa sammælst um markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en taflinu verður ekki snúið við nema með samstilltu átaki atvinnulífs og stjórnvalda. Íslenskt atvinnulíf hefur bæði vilja og metnað til að gera meira og betur í þessum málum og styðja heilshugar við markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI og formaður Grænvangs, í ávarpi sínu á viðburði þar sem ný vefsíða Grænvangs, Green by Iceland, var opnuð fimmtudaginn 17. desember.

Íslenskt fyrirtæki geta hjálpað öðrum ríkjum að ná markmiðum í loftslagsmálum

Sigurður sagði jafnframt að við hefðum margt fram að færa enda eigi nýting endurnýjanlegrar orku sér yfir hundrað ára sögu hér á landi. „Uppbygging orkusækins iðnaðar hefur skapað þekkingu hér á landi sem nýtist annars staðar til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig geta íslensk fyrirtæki hjálpað öðrum ríkjum að ná sínum markmiðum í loftslagsmálum með nýtingu endurnýjanlegrar orku og skapað um leið verðmæti hér á landi. Þetta gæti orðið okkar helsta framlag til heimsins á næstu árum ef rétt er á málum haldið og var Grænvangur, samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um orkuþekkingu og grænar lausnir meðal annars stofnaður í því skyni.“

Þá kom fram í máli Sigurðar að þekking okkar hafi nýst víða um heim og að framundan sé skeið fjárfestinga í grænni tækni á alþjóðlegum vettvangi. „Þessi tækifæri verður að sækja og getur Grænvangur verið lykillinn að því.“

Loftslagsvandinn ekki leystur nema með nýsköpun

Sigurður sagði loftslagsvandann ekki verða leystan nema með nýsköpun – með því að finna aðrar leiðir til að gera hlutina – þar sem losun gróðurhúsalofttegunda sé minni eða jafnvel engin. Nýsköpun sé einnig lykill að fjölgun eftirsóttra starfa og sköpunar verðmæta. „Með því að efla útflutning á orkuþekkingu og grænum lausnir er um leið hvatt til frekari nýsköpunar sem styrkir fjórðu stoðina – hugverkaiðnað sem hefur skotið rótum og á alla möguleika á að vaxa og verða helsta útflutningsstoð Íslands ef rétt er á málum haldið og mun reynast mikilvægur í þeirri efnahagslegu endurreisn sem framundan er. Þannig gegnir Grænvangur mikilvægu hlutverki við að hvetja til nýsköpunar, efla útflutning og um leið að skapa eftirsótt störf með því að segja frá árangri okkar og miðla og selja þær lausnir sem til eru á sviði orkuþekkkngar og grænna lausna.“

Á myndinni hér fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Birta Kristín Helgadóttir, verkefnastjóri greininga hjá Grænvangi, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Eggert Benedikt Guðmundsson, framkvæmdastjóri Grænvangs, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI og formaður Grænvangs, og Kamma Thordarson, verkefnastjóri kynninga hjá Grænvangi.

Hér er hægt að horfa á viðburðinn:

https://vimeo.com/491650983?fbclid=IwAR2D1C6uLAU-PEUmXerVh_Q5iyRHbUkNf9owMx8B3N3QXWaAkBimo87aQws