Fréttasafn3. jan. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Þarf skýra forystu til umbóta

Í tímaritinu Áramót sem gefið er út af Viðskiptablaðinu/Frjálsri verslun svarar Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, nokkrum spurningum:

Hvernig var árið 2023 á heildina litið? 

Það hefur sannarlega verið ánægjulegt að sjá vaxtartækifæri víða og sums staðar var uppskeran ríkuleg á árinu. Á sama tíma höfum við verið minnt á veikleika í stórum kerfum hér á landi. Há verðbólga og stýrivextir koma niður á vexti og afkomu fyrirtækja og landsmanna allra. Húsnæðisskortur á talsverðan þátt í þeirri þróun. Skerðingar á raforku eru staðreynd þriðja veturinn í röð og fyrir Alþingi liggja neyðarlög til skömmtunar á raforku, sem er bein afleiðing 15 ára aðgerðarleysis í orkuöflun. Niðurstöður PISA kannana eru mikil vonbrigði og benda til veikleika í menntakerfinu. 

Hvað fannst þér ganga vel á árinu? 

Heilt yfir gengu útflutningsgreinar iðnaðar – hugverkaiðnaður og orkusækinn iðnaður – vel á árinu eins og sjá má af 17% vexti hugverkaiðnaðar á fyrri hluta árs sem og af methagnaði Landsvirkjunar. Salan á Kerecis til Coloplast minnir á verðmætin sem felast í öflugum iðnaði. 

Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs? 

Reikna má með því að það hægi á hagvexti en með skynsömum kjarasamningum og hagstjórn mun verðbólgan hjaðna sem skapar forsendur fyrir lægri vöxtum. Það eru mikil tækifæri hér á landi en til þess að þau verði að veruleika þarf skýra forystu til umbóta. Auka þarf orkuöflun, byggja fleiri íbúðir, vinna að grænni iðnbyltingu með nýsköpun og fjárfestingum og einfalda þarf regluverk.

Áramót, 31. desember 2023.

Aramot-31-12-2023