Fréttasafn22. nóv. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi Samtök álframleiðenda á Íslandi Starfsumhverfi

Þarf skýra og skilvirka hvata í loftslagsmálum

Þróun á grænni tækni og umhverfisvænum framleiðsluferlum stendur yfir í atvinnulífinu og mun sú vegferð halda áfram. Hér á landi hefur atvinnulífið sammælst um mikilvægi þess að gera betur og var það undirstrikað í fyrstu útgáfu af Loftslagsvísi atvinnulífsins, sem kynntur var fyrr á þessu ári. Ljóst er að atvinnulífinu er alvara og ef Íslendingar ætla að vera í forystu á þessu sviði, þá þurfa stjórnvöld að stíga inn í það samstarf af fullum þunga. Hvatarnir þurfa að vera nægilega skýrir og skilvirkir, þannig að ekki bara lausnirnar verði til heldur að þær verði innleiddar. Þetta segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í grein sinni í ViðskiptaMogganum undir yfirskriftinni Loftslagsvandinn aflgjafi nýrrar iðnbyltingar.

Atvinnulífið gegnir lykilhlutverki í nýrri iðnbyltingu

Pétur segir að verkefnið í loftslagsmálum sé tvíþætt, það snúist annarsvegar um orkuöflun og orkuskipti á heimsvísu og hinsvegar um nýsköpun og þróun sem leiði til nýrra ferla og nýrrar tækni. Í báðum tilvikum gegni atvinnulífið lykilhlutverki. Hann vitnar til orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Silfrinu þar sem Sigurður kallar þetta í raun á nýja iðnbyltingu – og að hann leyfði sér að vera bjartsýnn: „Það er ekkert útilokað að þróunin verði miklu hraðari en við sjáum fyrir vegna þess að framvindan er ekki alltaf línuleg. Um leið og ný tækni er orðin til, þá verður hún innleidd hraðar, nýsköpunin er mikil og gróskan í þessum efnum.“ Pétur segir að Sigurður nefni sem dæmi að Airbus væri að þróa vetnisknúnar flugvélar, sem lagt væri upp með að kæmu á markað 2035, en losunin sé mikil frá flugi á heimsvísu. „Þetta er dæmi um hvernig fyrirtækin eru á fleygiferð að finna lausnir sem henta markaðnum og taka á þessum málum.“

Þjóðir heims axli ábyrgð sameiginlega

Pétur segir miklu varða að þjóðir heims axli ábyrgðina sameiginlega og að tekið sé á vandanum á hnattræna vísu, enda sé loftslagsvandinn ekki staðbundinn. Evrópusambandið hafi fyrir löngu gert sér ljóst að það sé engin lausn að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda staðbundið í Evrópu með því að hrekja iðnað úr álfunni. Kolefnisfótspor iðnaðar sé almennt lægra í Evrópu en í öðrum heimsálfum, þannig að ef iðnaðurinn hrekist þaðan þá dýpki loftslagsvandinn. Það væri því eins og að pissa í skóinn sinn. Þess vegna hafi verið búinn til kolefnislekalisti um atvinnugreinar sem mikilvægt sé að halda innan Evrópu og tryggja samkeppnishæfni þeirra greina og sé áliðnaður þar á meðal.

Álver beitir í fyrsta sinn Carbfix-tækni við föngun og förgun kolefnis

Pétur nefnir að hér á landi hafi stjórnvöld stigið markvisst skref sumarið 2019 með undirritun viljayfirlýsingar með stóriðjunni á Íslandi, álverum og kísilverum, ásamt Orkuveitu Reykjavíkur, um að leita leiða til að verða kolefnishlutlaus árið 2040. Jafnframt fólst í yfirlýsingunni að kannað yrði til hlítar hvort „carbfix“ eða gas í grjót væri raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega, til að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) frá stóriðju á Íslandi. Hann vitnar til orða Rannveigar Rist, forstjóra Isal, sem fagnaði þessu frumkvæði stjórnvalda: „Þetta er krefjandi og viðamikið brautryðjendaverkefni og til þess að árangur náist þurfa allir að leggjast á eitt.“ Pétur segir það hafa verið mikinn áfanga þegar Rio Tinto og Carbfix lýstu því yfir að samstarf hefði tekist um að fanga kolefni frá álveri Isal við Straumsvík og binda það varanlega í steindir í bergi í grennd við álverið. Hann segir það vera í fyrsta sinn sem álver beiti Carbfix-tækninni við föngun og förgun kolefnis. 

Hér er hægt að lesa grein Péturs í heild sinni.

ViðskiptaMogginn, 17. nóvember 2021.

VidskiptaMoggi-17-11-2021