Fréttasafn



29. apr. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Þarf sveigjanlegra regluverk til að fara nýjar leiðir

Á vefmiðlinum Austurfrétt er umfjöllun um erindi Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, sem hún flutti á ársfundi Sjálfbærniverkefnis á Austurlandi sem haldinn var í Valaskjálf. Fundurinn var helgaður húsnæðismálum. Í fréttinni er haft eftir Jóhönnu Klöru að mikið bil milli söluverðs fasteigna og byggingakostnaðar sé eitt af því sem hleypi spennu í húsnæðismarkað á Austurlandi og breytt búseturmynstur fólks hafi aukið eftirspurn eftir fasteignum um allt land.

Í fréttinni kemur fram að Samtök iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hafi nýverið talið  íbúðir í byggingu í landinu þar sem 42 íbúðir hafi verið í byggingu á mið-Austurlandi, 30 í Fjarðabyggð og 12 í Múlaþingi. Hafði þeim fækkað um fimm í Múlaþingi frá í september en ekki breyst í Fjarðabyggð. Taldar eru íbúðir sem ekki hefur verið flutt inn í en ekki er vitað hvort þær séu seldar. Á landsvísu bættust við 1.300 íbúðir í byggingu á sama tímabili.

Haft er eftir Jóhönnu Klöru að einfalda þyrfti regluverk um tímabundna búsetu og að hún hafi nefnt að í nágrannalöndum sé til færanlegt húsnæði. Ekki gangi að þurfa fyrst að byggja yfir þá sem eiga svo að byggja húsin fyrir aðra. Með þessu væri ekki verið að planta niður gámum heldur væru til „flott tímabundin úrræði“ sem íslenskar reglur leyfðu ekki. Þá segir í Austurfrétt að hún hafi sagt að auka þyrfti skilvirkni hjá ríki og sveitarfélögum. Til dæmis sé óþægilegt að reglur séu mismunandi milli sveitarfélaga. Jafnframt kemur fram að Jóhanna Klara hafi sagt tilurð HMS hafa einfaldað stjórnsýsluna hjá ríkinu sem og að málaflokkurinn væri nú undir einu en ekki fimm ráðuneytum. Hún sagði að þótt leiða yrði leitað til að einfalda ferli og ná niður kostnaði yrði ekki slegið af gæðum. Sveigjanlegra regluverk þyrfti hins vegar til að hægt væri að fara nýjar leiðir.

Austurfrétt, 28. apríl 2022.