Fréttasafn4. maí 2017 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni Orka og umhverfi

Þarft að setja fram langtímasýn um minni losun en hugtök óljós

Í umsögn Samtaka iðnaðarins um tillögu til þingsályktunar um stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland, 114. mál, kemur fram að leiðin að minni losun gróðurhúsalofttegunda sé eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans. Sú vegferð sem heimurinn er á sé mikilvæg og verkefnið muni standa um áratugaskeið. Því sé þarft að horfa til langs tíma og huga að langtímasýn og Ísland hafi skuldbundið sig til að ná metnaðarfullum markmiðum um minni losun fyrir árið 2030.

Samtök iðnaðarins eru sammála því að nú þegar markmið næsta áratugar hafa verið sett fram er þarft að setja einnig fram sýn til lengri tíma, byggt á greiningu á leiðum og tækifærum. Í umsögninni segir jafnframt að Samtökin telji þingsályktunartillöguna óljósa hvað varðar þau hugtök sem notuð eru og hver ramminn er en það þurfi að vera skýrt hvað átt er við. 

Iðnaðurinn mun ekki láta sitt eftir liggja

Ennfremur segir í umsögninni: Ljóst er að það kallar á samhent átak fjölda aðila að ná markmiðum sem sett hafa verið og iðnaðurinn mun ekki láta sitt eftir liggja. Íslensk fyrirtæki hafa sýnt metnað í loftslagsmálum. Sem dæmi þá er íslensk tækni fyrir sjávarútveg í fremstu röð þegar kemur að áherslu á minni losun og íslensk álframleiðslan er með eitt minnsta kolefnisspor sem um getur í heiminum. Íslensk fyrirtæki munu áfram leggja metnað sinn í að vera í forystu í þessum málum. Loftslagsmál eru hnattræn í eðli sínu og höfum við náð góðum árangri á mörgum sviðum hérlendis. Framleiðsla á hreinni orku er eitt stærsta framlag okkar til loftslagsmála. Vörur framleiddar hérlendis hafa því mun lægra kolefnisspor en víða annars staðar og þannig skilar framleiðslan lægra kolefnisspori í hnattrænu samhengi. Hver sem ákvörðun stjórnvalda verður um framtíðarsýn þá er iðnaðurinn tilbúin til að taka þátt og leggja sitt af mörkum í samstarfi við stjórnvöld og með stuðningi þeirra, vinna að heildstæðari áætlun og setja tímaramma og markmið til að gera framtíðarsýn að veruleika. Sem dæmi má nefna að með því að leggja til markvissan stuðning og styrki til rannsókna og þróunarverkefna á grænum lausnum getum við byggt upp hérlendis nýja tækni og aðlagað vörur og þjónustu að kröfum nútímans. Við getum auk þess lært af nágrannaþjóðum okkar sem sjá tækifærin í breytingum. Atvinnusköpun í grænni tækni, ný tegund af útflutningi byggð á þekkingu og styrkleikum okkar getur orðið að veruleika. Með Loftslagssjóði má styrkja nýsköpun á þessu sviði, styrkja nýja stoð í atvinnulífinu og auka útflutning á vistvænni tækni frá Íslandi.

Hér má nálgast umsögnina.