Fréttasafn11. apr. 2016 Menntun

Þátttökuskólum fjölgar í GERT

 Á vorfundi GERT – Grunnmenntun efld í raunvísinum og tækni - sem haldinn var 7. apríl s.l.  var farið yfir skólaárið sem er að líða. Verkefninu hefur miðað vel og er það sérstakt fagnaðarefni að að þátttökuskólum fjölgaði úr fjórum í tólf. 

Á fundinum greindu fulltrúar skólanna frá áhugaverðum verkefnum og þeirri þróun sem átt hefur sér stað í skólunum. Sem dæmi er boðið upp á GERT valfag, GERT lokaverkefni eða samþættari nálgun bæði milli faga og þvert á árganga td. með starfamessum í skólunum þar sem störf foreldra eru í brennidepli.

Mörg skemmtileg verkefni hafa verið í boði, svo sem heimsókn frá Team Spark hóp HÍ, heimsókn í Tækniskólann og Keili og í 16 flott fyrirtæki. Skólarnir lögðu ríka áherslu á jákvætt viðmót fyrirtækja og þakka það GERT stimplinum. Helstu áskoranir skólanna er kostnaður við heimsóknir og að búa til aukinn sveigjanleika í stundarskrá. 

GERT  (verkefni um að grunnmenntun verði efld í raunvísindum og tækni), sem er að ljúka sínu þriðja starfsári, er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga með það að markmiði að efla áhuga nemenda í grunnskóla á raunvísindum og tækni og jafnframt kynna fyrir þeim verk- og iðnmenntun ásamt störfum sem því tengjast. 

Á fundinum voru veittar viðurkenningar fyrir þátttöku í verkefninu Viðurkenningar hlutu: Álftanesskóli, Garðaskóli, Grunnskóli Húnaþings Vestra, Holtaskóli, Hólabrekkuskóli, Laugalækjarskóli, Norðlingaskóli og Ölduselsskóli. 

En á síðastliðnu ári hlutu Garðaskóli, Grunnskóli Húnaþings Vestra, Norðlingaskóli og Grunnskólinn á Ísafirði GERT viðurkenningar og voru þær þá veittar í fyrsta sinn.  

Að lokum ber að nefna að tilkynnt var að verkefnisstjóri verkefnisins, Halla Kristín Guðfinnsdóttir, mun halda áfram sem verkefnisstjóri og vakti það mikla ánægju fundargesta.