Þingmaður dregur ekki upp rétta mynd af nýsköpun hér á landi
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, gerir athugasemdir við orð þingmanns Viðreisnar um nýsköpun á Vísi. Hún segir að sú mynd af stöðu nýsköpunar á Íslandi sé skökk sem þingmaðurinn Pawel Bartoszek dregur fram í grein á Vísi þar sem hann segir að tækni- og nýsköpunarfyrirtæki séu enn minna sýnileg á íslenskum markaði en í Evrópu og kemur einnig fram í frétt Vísis. Sigríður segir að mörg verðmætustu fyrirtækjanna í íslensku kauphöllinni séu þvert á móti tækni- og nýsköpunarfyrirtæki, eins og JBT Marel og Alvotech sem hafi verið byggð frá grunni á Íslandi. Til viðbótar megi nefna Emblu Medical, Kerecis og CCP. Virði Kereces við sölu þess hafi verið meira en markaðsvirði flestra þeirra félaga sem Pawel nefnir í grein sinni þó að félagið hafi ekki verið skráð á markað hér.
Hlutfall fjárfestinga í rannsóknum og þróun hærra hér en í ríkjum Evrópusambandsins
Þá kemur fram að Sigríður segi í tölvupósti til Vísis að íslenskt atvinnulíf eigi vissulega undir högg að sækja, meðal annars vegna íþyngjandi regluverks, hás raforkukostnaðar og stöðu alþjóðaviðskipta. Staðan sem þingmaðurinn dragi upp af nýsköpun hér sé þrátt fyrir það ekki rétt enda sé fjárfesting í rannsóknum og þróun umtalsvert meiri hlutfallslega á Íslandi en að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins. „Það er umhugsunarefni að þingmaður dragi upp skakka mynd af stöðu nýsköpunar á Íslandi en að okkar mati gerir þetta lítið úr þeim stórkostlegu nýsköpunar-, tækni- og hugverkafyrirtækjum sem hafa byggst upp hér á landi.“
Vísir, 29. október 2025.

