Fréttasafn



13. apr. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Þó íbúðum í byggingu fjölgi leysir það ekki framboðsskort

„Helstu niðurstöður í þessari nýju talningu eru þær að íbúðum í byggingu er að fjölga og þeim hefur fjölgað frá síðustu talningu okkar eða um 21%. Það eru mjög jákvæð tíðindi en engu að síður er sá framboðsskortur sem er nú til staðar á markaðnum ekki leystur með þessu,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í Fréttablaðinu þar sem fjallað er um íbúðamarkaðinn.

Ingólfur segir jafnframt að margar af þessum íbúðum séu á fyrstu byggingarstigum og því sé eitthvað í að þær komi inn á markaðinn. „Þó að við sjáum vöxt þá er hann ekki nægur til að mæta þörfinni en að mati HMS er þörf fyrir 3.500 til 4.000 nýjar íbúðir á ári. Við búumst við að á þessu ári komi um 2.500 íbúðir á markaðinn og 3.100 íbúðir á því næsta.“ 

Vandi íbúðamarkaðarins fyrst og fremst framboðsskortur

Í Fréttablaðinu segir Ingólfur að vandi íbúðamarkaðarins í dag sé fyrst og fremst framboðsskortur. „Það er þessi framboðsskortur sem knýr verðið upp og knýr líka verðbólguna upp. Seðlabankinn hefur brugðist við þessari stöðu með vaxtahækkun en það leysir ekki framboðsskortinn og þetta ójafnvægi.“ 

Tryggja þarft nægt og fjölbreytt lóðaframboð

Þá kemur fram í fréttinni að Ingólfur segir að Samtök iðnaðarins hafi bent á ójafnvægi á markaðnum árið 2019 en stjórnvöld hafi ekki brugðist við. „Þessi skortur var farinn að sýna sig í talningu árið 2019 en það var ekkert brugðist við því á þeim tíma. Staðan í dag er þannig að við þurfum stöðuga húsnæðisuppbyggingu sem mætir þörf og við þurfum að draga úr sveiflum á íbúðamarkaði. Til þess þurfum við að tryggja að það sé nægt lóðaframboð.“ 

Ingólfur segir jafnframt í fréttinni að það þurfi þó að taka tillit til þess að staða sveitarfélaganna sé misjöfn þegar kemur að framboði á lóðum. „Staða sveitarfélaganna er misjöfn varðandi hvort þau geti brotið nýtt land eða ekki. En við þurfum að tryggja að fjölbreytt lóðaframboð sé í boði og síðan þarf skipulagsferlið að vera skjótvirkara. Við erum með alltof hægt ferli sem er of þungt í vöfum og hindrar að við getum með snöggum hætti leyst úr stöðunni sem er uppi á íbúðamarkaði nú. Ferlið er þungt og kostnaðarsamt og því þarf að breyta.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 13. apríl 2022. 

Frettabladid-13-04-2022