Þörf á að ráðast í aukna fjárfestingu í vegasamgöngum
Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í sérblaði Morgunblaðsins um ráðstefnu SI sem fer fram í dag í tengslum við opnun á Verk og vit um fjárfestingu í vegasamgöngum. Ingólfur segir meðal annars að vegaframkvæmdir myndi allstóran hluta af starfsemi íslensks byggingariðnaðar en greinileg þörf sé á að ráðast í auknar framkvæmdir á komandi árum og brýnt að tryggja betri samfellu í verkefnum á vegum hins opinbera. Á sama tíma þurfi áætlanir stjórnvalda um uppbyggingu á innviðum fyrir aðra samgöngumáta að ganga hraðar fyrir sig, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. „Byggingariðnaðurinn í heild sinni velti um 600 milljörðum króna í fyrra, skapar í kringum 18.000 störf og lagði um 305 milljarða króna af mörkum til landsframleiðslunnar á síðasta ári. Nánari skipting leiðir í ljós að sá hluti greinarinnar sem snýr að íbúðarhúsnæði veltir um 196 milljörðum, mannvirki atvinnuvega 247 milljörðum og loks að opinberir innviðir mynda 119 milljarða af veltunni en þar inni í eru t.d. framkvæmdir við sjúkrahús og mannvirki hins opinbera og aðeins um 23 milljarðar sem renna til vegaframkvæmda og brúarsmíði í þjóðvegakerfinu.“
Í viðtalinu bendir Ingólfur á að eldri úttektir sýni að 23 milljarðar sé of lág upphæð ef takast eigi að halda þjóðvegakerfinu í horfinu og ráðast í nauðsynlegar nýframkvæmdir. „Er nú svo komið að viðhaldsskortur er farinn að rýra gæði og virði vegakerfisins svo að á stöðum þar sem áður var bundið slitlag eru nú aftur komnir malarvegir.“
Hér er hægt að lesa viðtalið við Ingólf í heild sinni.
Morgunblaðið / Verk og vit, 18. apríl 2024.